Hallgrímur Ólafsson verkefnastjóri Írskra daga og Ísólfur Haraldsson hjá Vinum Hallarinnar saman á góðri stundu fyrir Írska daga í fyrra. Ljósm. eo.

Lopapeysan er fyrst og fremst gott partí

Lopapeysan á Írskum dögum er fyrir margt löngu orðin að landsþekktum tónlistarviðburði. Um er að ræða skemmtun í anda sveitaballanna eins og þau voru á árum áður og verður Lopapeysan nú haldin í þrettánda skipti næstkomandi laugardagskvöld. Ísólfur Haraldsson er framkvæmda- og viðburðastjóri Vina Hallarinnar, sem séð hafa um Lopapeysuna frá upphafi. Hann segir verkefnið hafa þróast töluvert frá fyrstu Lopapeysunni og að viðburðurinn hafi vaxið mikið frá árinu 2004 þegar hann var fyrst haldinn. „Þetta óx fljótlega upp í þægilega stærð sem við ákváðum að halda í. Svæðið þolir ekkert að við sækjum meira og við keyrum bara á að þetta sé númer eitt, tvö og þrjú skemmtilegt, þægilegt og gott partí,“ segir Ísólfur.

 

Óvæntir gestir í ár

Að vanda verður dagskráin byggð upp með vinsælum, íslensku tónlistarfólki. „Það er alveg fjöldi tónlistarmanna sem kemur fram. Það bætist alltaf í rétt fyrir viðburðinn. Núna verðum við með óvænta gesti sem við ætlum að segja frá í brekkusöngnum. Það er gaman að eiga eitt svona eftir, þetta verður eitthvað skemmtilegt,“ segir Ísólfur. Alls starfa í kringum 120 manns að viðburði sem Lopapeysunni að sögn Ísólfs. Hann segir töluverða vinnu felast í að skipuleggja fjölmennan viðburð sem Lopapeysuna en þó sé það orðið einfaldara núna en áður. „Maður er ekki með alveg eins miklar hjartsláttartruflanir og til að byrja með, sérstaklega fyrstu árin. Þá svaf maður varla frá því í janúar. Þá vorum við að læra að gera þetta og ekki komnir með þær tengingar sem við höfum í dag. Núna er þetta bara afgreitt í gegnum símann og þá er þetta tilbúið. Þetta eru orðnir margir viðburðir sem við erum að skipuleggja yfir allt árið, mikið af tónleikum hingað og þangað um landið og þetta er orðin þægilegri vinna. En jú, þetta er alltaf mikil spenna og við viljum gera þetta vel. Það þarf að huga að uppsetningunni sem slíkri, hverjir eiga að byrja og hverjir eru hvar. Þetta eru smá vísindi. Við erum alltaf að læra og að reyna að gera betur.“

 

Leikurinn sýndur í Garðalundi

Sama fyrirkomulag verður á Lopapeysunni og hefur verið undanfarin ár. Hún verður haldin í Sementsskemmunni við gömlu Akraborgarbryggjuna og í risatjaldi við hlið hennar. „Við tökum fyrst þátt í brekkusöngnum á þyrlupallinum með Club 71 og þar verður Ingó Veðurguð. Svo hefst Lopapeysan strax í kjölfarið niðri á bryggju.“ Í fyrra mættu tæplega þrjú þúsund manns á Lopapeysuna og býst Ísólfur við svipuðum fjölda í ár. Hann telur að gengi íslenska landsliðsins í knattspyrnu muni hafa góð áhrif þar á. „Forsalan sýnir að það eru fleiri miðar seldir núna en í fyrra á sama tíma. Þannig að þetta lítur vel út. Svo erum við að undirbúa að vera með risaskjá í Garðalundi á sunnudeginum í samstarfi við Akraneskaupstað þar sem við sýnum Ísland – Frakkland. Við erum að reyna að búa til skemmtilega stemningu á sunnudeginum og klára þessa helgi með stæl,“ segir Ísólfur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir