Gestastofa Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls flutt að Malarrifi

Margmenni var við opnun gestastofu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls í endurgerðu húsnæði á Malarrifi síðastliðinn þriðjudag. Kemur hún í stað gestastofnunnar sem verið hefur á Hellnum. Flutninginn bar upp á 15 ára afmæli þjóðgarðsins. Við þetta tilefni var enduropnuð sýning um náttúru og nýtingu svæðisins og sögu þjóðgarðsins. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra opnaði gestastofuna formlega. Flutt voru ávörp fulltrúa þjóðgarðsins, Umhverfisstofnunar og Snæfellsbæjar. Í þessum fyrrum fjárhúsum á Malarrifi rúmast nú gestastofa með fyrrgreindri sýningu, upplýsingamiðstöð, vinnu- og fundaaðstaða, starfsmannaaðstaða, geymsla og vinnurými. Nú hefur aðstaða þjóðgarðsins, starfsmanna og gesta, batnað til muna og ber t.d. að nefna að nú eru aðgengileg salerni allan sólarhringinn í húsinu en verulega hefur skort upp á að sú frumþörf ferðamanna hafi verið uppfyllt.

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar segir að með opnuninni sé stofnunin að bregðast við auknum ferðamannastraumi inn á svæðið og sinna betur þeirri frumskyldu þjóðgarða að fræða um náttúru og sögu svæðisins, bæði fræða gesti og ekki síður nærsamfélagið sem er grunnurinn að öflugum þjóðgarði. Jón Björnsson tók nýverið við starfi þjóðgarðsvarðar og var eitt fyrsta verk hans að vinna að flutningi gestastofnnar.

Gestastofa þjóðgarðsins hefur verið opin stærstan hluta ársins en stefnt verður að heilsársopnun alla daga ársins enda talið nauðsynlegt að bregðast við vaxandi fjölgun ferðamanna árið um kring með bættri þjónustu. Í sumar verður opið frá klukkan 10 til 17 alla daga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira