Marie Mrusczok í Grundarfirði er ein þeirra sem stendur að félaginu Orca Guardians Iceland.

Bjóða almenningi að taka háhyrninga í stafrænt ættleiðingarferli

Síðastliðinn miðvikudag voru samtökin Orca Guardians Iceland stofnuð. Þetta eru fyrstu íslensku rannsóknar- og dýravelferðarsamtökin af þessum toga, en hlutverk þeirra er verndun háhyrninga við Íslandsstrendur. Um er að ræða þverfaglegt samstarf alþjóðlegra og íslenskra sérfræðinga t.d. á sviði sjávarlíffræði, umhverfissálfræði og ferðaþjónustu. „Markmið samstarfsins er verndun íslenskra háhyrninga í forvarnarskyni og eingöngu er stuðst við rannsóknaraðferðir sem krefjast ekki ágengs inngrips í líf þeirra. Stór hluti rannsóknanna felur í sér gerð og uppfærslu eina ljósmyndagagnagrunnsins um íslenska háhyrninga sem haldið er við allt árið og byggir á gagnaöflun við Snæfellsnes síðan í janúar 2014,“ segir í tilkynningu.

Samtökin meta háhyrninga út frá einstökum persónueinkennum þeirra og leggja áherslu á umgengni af virðingu og varúð. Eitt af verkefnum samtakanna er því þróun sértækra viðmiða um ábyrga háhyrningaskoðun á sjó í samstafi við Hvalaskoðunarsamtök Íslands (IceWhale). Viðmiðin verða kynnt hvalaskoðnarfyrirtækjum um land allt en einnig stendur til að kynna þau fyrir sjómönnum og skemmtibátaeigendum á þekktum háhyrningaslóðum.

Þeir sem hafa áhuga á að styrkja starf samtakanna og fræðast um háhyrningana sem sést hafa úti fyrir Snæfellsnesi geta nú tekið þátt í stafrænu „ættleiðingarferli“ í gegnum heimasíðu samtakanna. Þannig má kynnst háhyrningnum „sínum“ út frá myndum, útlits- og atferlisupplýsingum sem safnað hefur verið saman á síðustu þremur árum. Þá er uppbygging háhyrningahópsins sem viðkomandi tilheyrir jafnframt útskýrð, algengt ferðamynstur sem og sérstök hegðun háhyrningsins. Einnig er hægt að fygljast með háhyrningnum „sínum“ í gegnum samfélagsmiðla samtakanna og fréttabréf með uppfærslum sem „ættleiðendur“ fá sent tvisvar á ári. Frekari upplýsingar er að finna á www.orcaguardians.org

Líkar þetta

Fleiri fréttir