Segja áform um sjókvíaeldi ógna óspilltum stofnum villtra laxa

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga var haldinn á Bifröst fyrr í þessum mánuði. Fundurinn samþykkti að lýsa yfir þungum áhyggjum af og mótmæla stórfelldum áformum erlendra og innlendra fjárfesta um eldi á norskum laxi í sjókvíum hér við land. „Aðalfundurinn telur að þessi áform stefni óspilltum stofnum villtra laxa í voða og séu í raun aðför að viðkvæmri náttúru Íslands. Sjókvíaeldi á norskum laxi er gróft brot á samkomulagi veiðiréttareigenda, eldisaðila og stangveiðimanna frá 1988 um að eldislax af erlendan uppruna skuli aldrei ala í sjókvíum við Ísland,“ segir í ályktun fundarins.

Þá segir að rannsóknir hafi leitt í ljós að úrgangur frá 10.000 tonna laxeldi jafnist á við skólpfrárennsli frá 150.000 manna borg. „Það ógnar lífríkinu á stórum svæðum umhverfis kvíarnar með óafturkræfum afleiðingum fyrir fuglalíf og uppeldisstöðvar sjávar- og vatnafiska. Reynsla Norðmanna af laxeldi í sjókvíum hefur leitt í ljós endalausa baráttu við smitsjúkdóma, erfðablöndun í villtan laxastofn og lúsafaraldur sem ógnar líffræðilegum fjölbreytileika. Sjókvíaeldi á kynbættum norskum eldislaxi er óafturkræf ógn við íslenska laxastofninn, ef risaáform í sjókvíaeldi ganga eftir. Þá bera fiskeldisfyrirtæki enga ábyrgð af eignaspjöllum og skaðvænlegum áhrifum á umhverfið. Fundurinn krefst þess að í lögum verði fyrirtækjunum gert skylt að kaupa umhverfistryggingar, sem bæta tjón sem af gæti hlotist.“

Loks lýstu fundarmenn furðu sinni á að laxeldisfyrirtækjunum eru afhent verðmæt strandsvæði endurgjaldslaust til starfseminnar utan netalaga og vekur athygli á veikburða eftirliti stofnana sem veita hvorki aðhald með virku eftirliti né skyldar fiskeldisfyrirtækin til ábyrgðar. „Fundurinn bendir á að í Noregi verða fyrirtækin að greiða háar fjárupphæðir fyrir útgefin starfsleyfi og nýtingu sjávar til eldisins. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld færi þessi mál til betri vegar og verði sjókvíaeldi leyft verði leyfin takmörkuð við geldlax og eldið verði staðsett fjarri silungs- og laxveiðiám.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir