Þjóðbúningahátíðin Skotthúfan í Stykkishólmi um næstu helgi

Þjóðbúningahátíð verður haldin í tólfta skipti í Stykkishólmi dagana 1.-3. júlí nk. Það var Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla, Norska húsið í Stykkishólmi, sem bryddaði upp á þeirri nýjung fyrir ellefu árum að hvetja fólk sem átti í fórum sínum þjóðbúning, að klæða sig upp og þiggja kaffi og pönnukökur í Norska húsinu. Skapaðist strax góð stemning í kringum þennan viðburð og komu gestir víða að uppábúnir. Viðburðurinn hefur vaxið í tímans rás og fyrir tveim árum fékk viðburðurinn nafnið Skotthúfan og jafnframt ákveðið að taka heila helgi undir hann. Undanfarin ár hefur dagskráin vaxið og atriði eins og tónleikar, langsspilssmiðja, þjóðdansakennsla, búningahandverk og fyrirlestrar sem tengjast þjóðbúningunum bæst við. Þannig hafa fleiri komið að undirbúningi hátíðarinnar á undanförnum árum. Ber þar helst að nefna Vinnustofuna Tang & Riis í Stykkishólmi, Listvinafélag Stykkishólmskirkju, Eldfjallasafnið í Stykkishólmi og Heimilisiðnaðarfélag Íslands.

Í ár er sjónum beint að Jörundi Hundadagakonungi. Sigrún Helgadóttir rithöfundur og Margrét Gunnarsdóttir sagnfræðingur munu fjalla um Jörund en saga íslensku búninganna tengist honum að vissu leyti. Margrét fjallar um ævi Jörundar og Sigrún fjallar um tengls íslenska þjóðbúningsins við Jörund, en hún hefur rannsakað íslenska faldbúninginn sérstaklega. Þessir fyrirlestrar verða í gömlu kirkjunni í Stykkishólmi.

Í vinnustofu Tang & Riis veitir Þjóðbúningastofan 7 í höggi ráðgjöf um búninga og búningavörur og verða sýnishorn á staðnum frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og Dóru Jónsdóttur gullsmið.

Í gömlu kirkjunni mun Arndís Hulda Auðunsdóttir, þjóðfræðingur, fjalla um Sigurð Breiðfjörð í erindinu: Lítil sköpun þroska nær. Mansöngvar Sigurðar Breiðfjörðs. Pétur Húni Björnsson kvæðamaður og þjóðfræðingur flytur efni eftir Sigurð.

Þjóðdansahópurinn Sporið sýnir þjóðdansa við Amtsbókasafnið.

Í Norska húsinu verður uppáklæddum gestum boðið upp á kaffi og pönnukökur.

Upphaf hátíðarinnar verður á Eldfjallasafninu þar sem sýndir verða þættirnir Þið munið hann Jörund Sjónvarpsgerð af leikriti Jónasar Árnasonar í leikstjórn og leikgerð Óskars Jónassonar. Tónlist KK. Helstu hlutverk: Sigurður Sigurjónsson og Bessi Bjarnason.

Kvöldvaka verður á laugardagskvöldið á vinnustofunni Tang & Riis. Þar verður boðið upp á tónlistardagskrá sem Eyjólfur Eyjólfsson söngvari og langspilsleikari hefur sett saman og inniheldur meðal annars vinsæla tónlist frá þeim tíma sem Jörundur var í Englandi áður en hann fer til Íslands.  Fleiri tónlistarmenn stíga á stokk á kvöldvökunni og flytja meðal annars tónlist úr leikriti Jónasar Árnasonar, Þið munið hann Jörund.

Allir viðburðir fara fram í hjarta gamla bæjarins í Stykkishólmi og svífur þjóðlegur andi yfir þegar sjá má prúðbúið fólk valsa á milli gömlu húsanna.

Ókeypis er á alla viðburði á Skotthúfunni.

Þess má geta að á sunnudeginum verða tónleikar í Stykkishólmskirkju kl. 17 en þar er á ferð Norræni djasskvartettinn Dorthe Hojland Group sem flytur frumsamda tónlist sem innblásin er af íslensku landslagi.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira