Ölver leitar til velunnara að hópfjármagna leiðslu frá nýrri vatnslind

Ölver, sumarbúðir KFUM og KFUK, eru mörgum að góðu kunnar en þær hafa verið starfræktar í 76 ár. Í Ölveri er unnið mikið kristið mannræktarstarf sem þúsundir barna hafa notið góðs af. Undanfarin ár hefur vatnslind sumarbúðanna reynst stopul og var sett á laggirnar vatnsöflunarnefnd sem starfaði í sjálfboðavinnu og tók ákvörðun í samráði við sérfræðinga að reyna að bora eftir vatni. Það blessaðist vel og kom borinn niður á góða vatnslind innan svæðis sumarbúðanna. Nýja lindin gefur gott vatn og annar vel vatnsþörf sumarbúðanna. Kostnaður við borunina og lagningu nýrrar vatnsleiðslu er í kringum þrjár milljónir króna, en stjórn sumarbúðanna hefur þegar útvegað fjármagn fyrir um 1,7 milljónum meðal annars með árlegri kaffisölu og fleiri gjöfum til starfsins. En sumarbúðastarfið nýtur engra opinberra styrkja. Það sem útaf stendur er 1,3 milljón króna og er nú verið að reyna hópfjármögnun í gegnum Karolinafund söfnunarsíðuna.

Leiðslan sem lögð hefur verið er 160 metrar en grafa þurfti nokkuð djúpan skurð, þar sem samhliða var lögð ný hitaveituleiðsla. Þá var keypt dæla, vatnið tengt inn á kerfið, fyllt upp í skurðin og sáð í sárin sem mynduðust. Hver meter af fullbúinni leiðslu niðurgrafanni og tilbúinni til notkunar kostar rúmar 8.000 krónur. 10 sm af leiðslunni tilbúinni til notkunar kostar því 800 krónur og er fólk að styrkja starfið með því að kaupa 15 sm og upp í tvo metra.

Starfið í Ölveri byggir á sjálfboðavinnu. Á þriðja þúsund vinnustundir eru gefnar á ári hverju til að halda starfinu gangandi. Allt utanumhald við sumarbúðirnar er unnið í sjálfboðavinnu, en stjórn Ölvers vinnur allt sitt án þess að þiggja krónu fyrir. Þess fyrir utan er góður hópur fólks sem heldur utan um verklega þætti, endurnýjun og viðhald og enn aðrir sem sjá um kaffisölu, þrif á veturna, kynningu og stefnumótun.

Sjá söfnunina: https://www.karolinafund.com/project/view/1382

Ölver leitar til velunnara að hópfjármagna leiðslu frá nýrri vatnslind_2

Líkar þetta

Fleiri fréttir