Á þriðja þúsund brautskráðust frá Háskóla Íslands

Háskóli Íslands útskrifaði á laugardaginn 2.108 einstaklinga með 2.127 prófskírteini. Í febrúarmánuði síðastliðnum brautskráði skólinn 410 kandídata og er því heildarfjöldi brautskráðra á árinu kominn 2.518. Við útskriftarathöfnina, sem fram fór í Laugardalshöll, sagði Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands meðal annars: „Í mínum huga ber okkur brýn samfélagsleg skylda að stuðla að því að sem flestir fái notið þeirra varanlegu auðæfa sem menntastofnanir landsins búa yfir, óháð efnahag, kyni eða uppruna. Jón Atli vék að mikilvægi menntunar í uppbyggingu samfélagsins og sagði að Háskóli Íslands hefði allt frá upphafi haft þá köllun að veita nýrri þekkingu inn í samfélagið. Hann sagði að háskólamenntun virkjaði þrótt einstaklingananna til virkrar þátttöku í uppbyggingu þess þar sem þekking, samstarf og skapandi hugsun væri nýtt til hins ýtrasta í þágu aukinna lífsgæða og velsældar fyrir alla.

Rektor vék einnig að fjármögnun háskólanna og menntakerfisins í heild og sagði okkur Íslendinga aldrei mega láta stundarhagsmuni og skammsýni bera okkur af leið eða villa okkur sýn. „Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni,“ sagði rektor og höfðaði þannig til stjórnvalda að bæta í fjármögnun háskólastigsins og menntakerfisins í heild. Hann sagði að háskólinn yrði að geta treyst á að yfirvöld skilji mikilvægi menntunar og að þau yrðu á hverjum tíma að setja varanlega hagsmuni þjóðarinnar framar öðrum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir