Bjarni Júlíusson og félagi hans með tvo úr Breiðinni í Hítará. Ljósm. gb.

Laxveiðin byrjar allsstaðar vel

Það er ekki hægt að segja annað en laxveiðin byrji vel þetta sumarið. Allsstaðar komnir laxar og víða mikið. Um miðja síðustu viku var Blanda á toppnum, en þar höfðu þá veiðst 535 laxar. Í öðru sæti var Þverá og Kjarará með 302 laxa og Norðurá fyldi í kjölfarið með 280. Veiði er hafin í flestum ánum og allsstaðar hefur orðið vart við mikið af laxi. Til dæmis var Krossá á Skarðsströnd í Dölum opnuð á laugardagsmorgun klukkan sjö. Fyrir klukkan níu voru tveir fallegir laxar komnir á land og sáu veiðimenn marga í ánni.

Bjarni Júlíusson var að koma úr sinni árlegu fjölskylduferð í Hítará á Mýrum.  Hann segir stöðuna alveg einstaka í ánni. Aldrei hafi jafn mikið af laxi gengið svo snemma í Hítará, svo hann viti til. Fiskurinn er auk þess dreifður um alla á og til marks um það hafa veiðimenn sett í og landað fiskum fyrir ofan Kattarfoss. Grettisbæli er að gefa laxa og svo eru þessir hefðbundnu staðir eins og Langidráttur, Breiðin og Kverkin einfaldlega stútfullir af laxi. „Fyrstu sex dagarnir gáfu 73 laxa, sem er líklega einsdæmi. Þetta er vænn stórlax og smálax í bland. Smálaxinn skiptist alveg í tvo hópa, annars vegar rýrir þriggja punda fiskar, hins vegar flottir fimm pundarar. Merkilegt að sjá hvað þeir voru ólíkir,“ sagði Bjarni í samtali við Skessuhorn. „Okkur gekk ágætlega, en toppurinn var þegar gamall vinur minn úr Grundarfirði leit við á föstudagsmorgninum. Hann hefur búið í Bandaríkjunum síðastliðin 40 ár. Lenti á Keflavíkurflugvelli snemma morguns. Var kominn uppeftir til okkar 90 mínútum síðar og það tók ekki langan tíma að setja í lax. Svona á að gera þetta,“ sagði Bjarni Júlíusson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir