Svipmynd frá Hólum í dag, á fyrsta degi LM. Ljósm. Sveinbjörn Eyjólfsson.

Landsmót hestamanna hafið á Hólum

Landsmót hestamanna hófst í dag á Hólum í Hjaltadal. Keppni hófst á B-flokki gæðinga og í kjölfarið og næstu daga fylgir hver viðburðurinn á fætur öðrum. Hámarki nær mótið á laugardaginn þegar öll úrslit verða. Á sunnudeginum verða þó ýmsir hestatengdir viðburðir í gangi en mótinu lýkur síðar þann dag. Mótshaldarar búast við allt að tíu þúsund gestum í skagfirsku sveitasæluna í Hjaltadalnum, en keppnis- og sýningarhross verða hátt í 800. Gríðarmikil uppbygging hefur átt sér stað á Hólum og ber þar hæst gerð nýs kynbótavallar. Háskólinn á Hólum hefur myndað sér sérstöðu og má segja að þar sé nú miðstöð fyrir rannsóknir og kennslu í hrossarækt og hestamennsku og því vel við hæfi að staðinn sæki heim sem flestir til að kynnast betur því sem þar er í gangi.

Vestlendingar geta vænst góðs árangurs knapa og hrossa úr landshlutanum. Sem dæmi má nefna að efsti hesturinn í A-flokki af úrtökumótum fyrir mótið er Sólonssonurinn Skýr frá Skálakoti, en Jakob Svavar Sigurðsson sýnir hann og keppir fyrir hestamannafélagið Dreyra. Jakob Svavar sýnir alls um tvo tugi hrossa á mótinu. Efsti hestur í B-flokki er einnig úr vestlenskri ræktun, Steggur frá Hrísdal sem Siguroddur Pétursson frá Snæfellingi sýnir. Þá má búast við að börn og unglingar af Vesturlandi geti blandað sér í toppbaráttuna á mótinu, en Aníta Björk Björgvinsdóttir frá Skugga í Borgarnesi er önnur efst í forkeppni í barnaflokki á Klöpp frá Skjólbrekku. Sigrún Rós Helgadóttir frá Skugga er sjöunda í ungmennaflokki á Höllu frá Kverná. Auk þess má búast við að kynbótahross úr landshlutanum eigi eftir að vekja athygli á mótinu. Meðal annars sex vetra hryssan Hamingja frá Hellubæ sem stendur efst í forsýningu auk fjölmargra annarra hryssa og stóðhesta. Allir áhugasamir um íslenska hestinn eru hvattir til að fjölmenna að Hólum, en einnig verður hægt að fylgjast með fréttum af mótinu á ýmsum miðlum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir