Guðni Th Jóhannesson verður næsti forseti Íslands

Íslendingar gengu að kjörborðinu í gær og kusu sér nýjan forseta. Guðni Th Jóhannesson sagnfræðingur hlaut flest atkvæði þeirra níu frambjóðenda sem í kjöri voru. Fékk hann alls 71.356 atkvæði, eða 39,1% fylgi þeirra sem kusu. Kjörsókn á landinu var venju fremur góð í þessum forsetakosningum. 75,7% nýttu atkvæðisréttinn, eða 185.390 manns. Í öðru sæti varð Halla Tómasdóttir en hún hlaut 27,9% atkvæða. Andri Snær Magnason hlaut 14,3%, Davíð Oddsson 13,7% og Sturla Jónsson 3,5%. Hinir fjórir frambjóðendurnir hlutu innan við eitt prósent atkvæða hver.

Úrslit þessara kosninga og kjör Guðna Th Jóhannessonar verður að teljast afgerandi. Í framboði voru níu. Hlaut Guðni upp undir sama atkvæðavægi og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands fékk fyrst þegar hann var kjörinn forseti árið 1996 og mun meira fylgi en Vigdís Finnbogadóttir hlaut þegar hún var kjörin árið 1980. Engu að síður höfðu skoðanakannanir sýnt fylgi Guðna Th Jóhannessonar meira á framboðstímanum, eða allt upp í tæp 70%. Miðað við þróun skoðanakannana var það Halla Tómasdóttir sem vann langmest fylgi á síðustu dögunum.

Guðni Th Jóhannesson sjötti þjóðkjörni forseti Íslands er 48 ára sagnfræðingur og fimm barna faðir. Hann er giftur Elizu Reid og eiga þau saman fjögur börn. Fyrir átti Guðni eldri dóttur. Guðni tekur við embætti forseta Íslands 1. ágúst næstkomandi og mun hann, eiginkonan og börn þeirra flytja búferlum af Seltjarnarnesi og á Bessastaði á Álftanesi.

Skessuhorn óskar nýkjörnum forseta og fjölskyldu hans til hamingju með kjörið og velfarnaðar í starfi þjóðhöfðingja Íslendinga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir