Heimamenn fararstjórar á sunnudaginn í gönguför um Reykholt

Snorrastofa býður til útivistar í Reykholti sunnudaginn 26. júní næstkomandi kl. 15 þar sem gengið verður um staðinn með nokkrum áningum. Það eru þeir sr. Geir Waage og Óskar Guðmundsson rithöfundur sem leiða gönguna og rekja sögu mannlífs og mannvirkja um aldir. Að undanförnu hefur að margra mati verið lyft Grettistaki í hirðu og uppbyggingu staðarins í Reykholti og því tímabært að heimamenn bjóði gestum og gangandi að njóta staðarins og sögu hans. Þess má geta að á nýliðnum þjóðhátíðardegi veitti Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson séra Geir Waage fálkaorðuna fyrir störf sín að uppbyggingu og skógrækt í Reykholti. „Allir eru hjartanlega velkomnir að vera með í göngunni, sem hefst við inngang Snorrastofu á neðra bílaplani og stendur í um klukkustund,“ segir í tilkynningu frá Snorrastofu.

Líkar þetta

Tengdar fréttir

Fleiri fréttir