Brákarhátíð um helgina

Brákarhátíð í Borgarnesi verður haldin nú um helgina. Eins og venjulega verður fjölbreytt dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna. Formleg dagskrá hefst á morgun, laugardaginn 25. júní. Íbúar í Borgarbyggð hefja gleðina þó í kvöld þegar allir hittast í götugrillum. Líkt og fyrri ár er búið að skipta Borgarbyggð upp í litasvæði. Borgarnesi hefur verið skipt í þrjú hverfi, Hvanneyri er eitt hverfi og sveitinni hefur verið skipt í tvö hverfi, beggja vegna Hvítár. Íbúar hafa undanfarna daga keppst við að setja upp skreytingar enda mun dómnefnd velja best skreytta hverfið, frumlegustu götuna og flottasta sveitabæinn.

Formleg dagskrá hefst á Brákarhlaup kl 9 í fyrramálið. Þá getur fólk hlaupið, skokkað, gengið eða hjólað frá Granastöðum að Brákarsundi þar sem kvenfélagið mun bjóða hlaupurum upp á dögurð. Þegar fólk hefur belgt sig út af góðgæti frá kvenfélaginu er hægt að skella sér í siglingu við Brákarsund eða fara með börnin að gera víkingaskart sem stelpurnar á Uglukletti aðstoða með. Lagt verður af stað í skrúðgöngu frá Eyjunni kl 13:30 og gengið upp í Skallagrímsgarð, þar sem sannkölluð víkingadagskrá tekur við. Um kvöldið hittast bæjarbúar hjá Brákarhlíð og taka þar nokkur lög áður en þeir ganga saman niður í Englendingavík þar sem Jógvan Hansen og Danni Tjokkó halda uppi stuðinu. Hátíðin endar á balli með hljómsveitinni Buffi í Hjálmakletti og getur fólk keypt miða í forsölu á Olís en einnig verður hægt að fá miða við innganginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir