Góðir vegir og kyrrð sem fyrr á Arnarvatnsheiði

Opnað var fyrir sölu veiðileyfa á Arnarvatnsheiði um miðja síðutu viku. Sama dag var talsverður straumur veiðimanna á heiðina enda höfðu margir beðið þess með óþreyju að komast af stað. Vegurinn er í góðu ástandi allt frá Kalmanstungu og greiðfært í vötnin. Einungis vaðið á Norðlingafljóti hamlar því að annað en vel búnir jeppar eigi erindi á heiðina. Blaðamaður Skessuhorns fór sjálfan þjóðhátíðardaginn í veiðiferð í Úlfsvatn. Þetta annað stærsta vatn heiðarinnar gaf talsvert af fiski í stykkjum talið en fiskurinn hefur oft verið stærri. Það er hins vegar afar misjafnt milli vatna hvort fiskurinn er stór eða lítill. Upplifunin var hins vegar góð. Þennan dag var mikil fluga sem angraði veiðimenn og algjörlega nauðsynlegt að hafa flugnanet með í ferð. Á meðfylgjandi mynd er Skagamaðurinn Þorbjörn Heiðar Heiðarsson með afla dagsins eftir að hann var búinn að gera að fiskinum.

Líkt og síðari ár eru veiðileyfi á Arnarvatnsheiði seld í söluskúrnum við Hraunfossa. Pantanir eru á netfangið runas@hive.is og nánari upplýsingar að fá á arnarvatnsheidi.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir