Brákarhátíð í Borgarnesi um helgina

Brákarhátíð verður haldin næstkomandi laugardag í Borgarnesi. Að sögn skipulagsaðila verður nóg um að vera og höfðað til allra aldurshópa. Að venju hefst hátíðin klukkan 9:00 að morgni á Brákarhlaupi, frá Granastöðum niður að Landnámssetri. Þess má geta að Þorgerður Brák hljóp á sínum tíma, með Skallagrím á hælunum, frá Granastöðum við Sandvík niður að Brákarsundi þar sem hún lét lífið. Í lok hlaups býður kvenfélagið upp á dögurð á planinu við Landnámssetrið. Eftir það tekur við ýmiskonar dagskrá. Fyrir hádegi verður boðið upp á bátasiglingar og víkingaskart fyrir börnin. Eftir hádegi verður skrúðganga Michelle frá Eyjunni og upp í Skallagrímsgarð, þar sem skátar verða með kaffisölu og boðið verður upp á fjölskyldudagskrá. „Þar verður hátíðarræða, spurningakeppni, verðlaunaafhending, tískusýning í boði Rauða krossins, tónlist og fleira. Tuddinn frá Hálsi í Kjós verða með hundrað prósent grasfóðrað nautakjöt í heimsins bestu borgurum og Rauða kross búðin í Borgarnesi verður með pokadag í búðinni;“ segir Hlédís Sveinsdóttir verkefnisstjóri. Þá verður einnig víkingamarkaður á Brákarhátíðinni milli kl. 14 og 17. Farin verður kvöldganga frá Brákarhlíð að Englendingavík klukkan 18, þar sem létt harmonikkutónlist verður spiluð á plani. „En það byrja alls konar skemmtilegheit fyrr. Til dæmis verða Svavar Knútur og Kristjana á Landnámssetrinu á fimmtudaginn klukkan 21 og svo eru auðvitað götu- og hverfagrillin á föstudeginum. Bærinn er skreyttur miklu fyrr og almennt mikið stuð á fólki,“ segir Hlédís. Á milli kl. 18:30 og 20 verður miðaftanvaka í Englendingavík. „Þar verður tengdasonur Borgarfjarðar, Jógvan Hansen, og Danni Tjokkó. Ef Ísland kemst í 16 liða úrslit verður leiknum varpað á tjald. Við endum hátíðina svo á balli með hljómsveitinni Buffi í Hjálmakletti.“

 

Hverfin skreytt

Að venju verður Borgarbyggð skipt upp í litasvæði; Borgarnes skiptist í þrjú hverfi, Hvanneyri í eitt hverfi og sveitin myndar tvö hverfi, „vestan og austan Hvítár,“ eins og segir í tilkynningu. Íbúar munu skreyta götur sínar í viðeigandi litum og dómnefnd mun aka um Borgarnes og Hvanneyri en sveitabæirnir senda inn myndir í gegnum samskiptamiðilinn Facebook. Að endingu verða verðlaun veitt fyrir skemmtilegasta hverfið, frumlegustu götu ársins og flottasta sveitabæinn. Allur undirbúningur hátíðarinnar er unninn í sjálfboðavinnu með stuðningi frá fyrirtækjum og sveitarfélaginu Borgarbyggð. „Það er hann Eiríkur Jóns sem ber hitann og þungann af þessu, elsku drengurinn. Ég vil beina því til fólks að vera nú huggulegt við hann, lauma að honum eins og einu knúsi eða allavega „high five“ fyrir þetta. Hann á það inni,“ segir Hlédís. „Konan hans Kristín er með honum í þessu, sem og Rúnar Gísla. Ég reyni svo að þvælast fyrir þeim bæði á fundum og í fjarskiptum,“ segir Hlédís að endingu.

 

Sjá nánar auglýsingu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir