Tæplega 600 hraðakstursbrot á einni viku

Lögreglumenn á Vesturlandi kærðu alls 37 ökumenn fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Sá sem ók hraðast mældist á 128 km/klst. Þá mynduðu hraðamyndavélar 550 hraðakstursbrot í vikunni á landinu öllu. Upp kom eitt ölvunarakstursmál og alls urðu átta umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi en engin slys á fólki. Einnig voru skráningarnúmer tekin af fimm ökutækjum vegna vanrækslu á skoðun og vegna trygginga. Á Akranesi var brotist inn í bát í Slippnum í liðinni viku. Þar voru hurðir brotnar upp til að komast að lyfjaskáp og lyfjum stolið úr honum. Lyfjum var einnig stolið í heimahúsi. Þá var lögregla kölluð til vegna ölvaðs manns á veitingastað. Leist gestunum eitthvað illa á að hann var að sýna hníf inni á staðnum. Ekki ógnaði hann þó neinum að því er virðist. Lögregla lagði hald á hnífinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir