Endurreikningur tekjutengdra greiðslna ársins 2015

Tryggingastofnun hefur lokið endurreikningi á tekjutengdum greiðslum ársins 2015 hjá stærstum hluta lífeyrisþega. Einstaklingar geta skoðað niðurstöður eigin endurreiknings á Mínum síðum. „Til að tryggja að lífeyrisþegar fái réttar greiðslur, sem eru í samræmi við raunverulegar tekjur þeirra á árinu 2015, miðast endurreikningurinn við tekjuupplýsingar í staðfestum skattframtölum. Endurreikningurinn er svo borinn saman við það sem greitt hafði verið á árinu. Niðurstaðan leiðir síðan í ljós hvort lífeyrisþegi fékk rétt greitt, vangreitt eða greitt umfram rétt. Samtals var endurreiknað fyrir 53 þúsund lífeyrisþega sem fengu greidda rúmlega 73,6 milljarða króna í tekjutengdar greiðslur á síðasta ári. Þar af voru 34 þúsund ellilífeyrisþegar og 19 þúsund örorkulífeyrisþegar. Niðurstaða endurreikningsins leiðir í ljós að 49% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur á síðasta ári eiga inneign hjá TR upp á samtals 2 milljarða króna en 38% hafa fengið ofgreitt samtals 2,6 milljarða króna. Ofgreiðslum fækkar á milli ára. Meðalupphæð inneigna sem lífeyrisþegar eiga hjá TR er rúmlega 77 þúsund krónur en meðalskuld þeirra sem hafa fengið ofgreitt er rúmlega 128 þúsund krónur,“ segir í tilkynningu frá TR.

TR mun gera upp við þá lífeyrisþega sem eiga inneign með eingreiðslu þann 1. júlí næstkomandi. Innheimta skulda sem orðið hafa til vegna ofgreiðslu á síðasta ári hefst hins vegar þann 1. september næstkomandi. Miðað er við að skuldin verði greidd á 12 mánuðum en ef það reynist lífeyrisþegum íþyngjandi er hægt að semja um lengri tíma.

Líkar þetta

Fleiri fréttir