Kortavelta ferðamanna jókst um fimmtíu prósent

Í maí síðastliðnum nam erlend greiðslukortavelta tæpum 20 milljörðum króna samanborið við rúmlega 13 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða 51,4% aukningu á milli ára. Í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar kemur fram að kortavelta ferðamanna jókst á milli ára í öllum útgjaldaliðum í maí. Erlendir ferðamenn greiddu tæpar 600 milljónir með kortum sínum til dagvöruverslana í maí, um 81% meira en í maí í fyrra en erlend kortavelta í dagvöruverslun hefur fjórfaldast á síðustu fjórum árum. Kortavelta erlendra ferðamanna í verslun jókst um tæp 41% á milli ára en það sem af er árinu hafa erlendir ferðamenn greitt 8,2 milljarða í verslun með kortum sínum. Eins og síðustu mánuði var mestur vöxtur á milli ára í flugferðum, um 146%. Er maí sjöundi mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári. Töluverð aukning var í kortaveltu ferðamanna til bílaleiga og greiddu ferðamann í maí rúmlega 1,8 milljarða, um 43% meira en í sama mánuði í fyrra fyrir bílaleigubíla. Það sem af er ári hafa ferðamenn eytt um 6 milljörðum í bílaleigubíla og sé eldsneyti, viðgerðir og viðhald bifreiða tekið með í reikninginn nam erlend kortavelta ferðamanna það sem af er ári til þessara flokka rúmum 8 milljörðum. Kortaveltan í flokki bílaleiga hefur fjórfaldast frá árinu 2012. Í maí komu um 124 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 37% fleiri en í sama mánuði í fyrra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir