
Geir Waage í hópi orðuhafa á þjóðhátíðardaginn
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sæmdi tólf Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Í þeim hópi er séra Geir Waage sóknarprestur í Reykholti. Hann fær riddarakross fyrir framlag til uppbyggingar Reykholtsstaðar og varðveislu íslenskrar sögu og menningar. Séra Geir hefur verið sóknarprestur í Reykholti síðan 1978, eða samfleytt í 38 ár. Á þeim tíma hefur grettistaki verið lyft í uppbyggingu staðarins og ber þar hæst byggingu Reykholtskirkju og Snorrastofu, endurbygging gömlu kirkjunnar, skógrækt og umhverfisbætur almennt.
Aðspurður segist séra Geir vera stoltur yfir þessari viðurkenningu og þyki mjög vænt um þann heiður sem sér og sveitungum hans er sýndur. „Það eiga margir aðrir þátt í því verki sem snýr að uppbyggingu Reykholtsstaðar auk varðveislu og miðlun sögunnar. Ég lít því öðrum þræði á þetta að ég sé fulltrúi þess hóps sem unnið hefur að uppbyggingu og ýmsum framfaraskrefum sem stigin hafa verið hér á þessum sögufræga stað. Ég er því ósköp glaður og þakklátur,“ sagði Geir Waage í samtali við Skessuhorn.