Ragnar safnar fyrir ferðalyftara með buffsölu

Líf Ragnars Egilssonar breyttist svo um munaði 28. júní 2014. Síðdegis á laugardegi lenti hann í alvarlegu mótorhjólaslysi rétt fyrir utan Akranes með þeim afleiðingum að hann hálsbrotnaði. Ragnar er 33 ára Skagamaður sem í dag er bundinn hjólastól, lamaður fyrir neðan háls. „Ég er nýlega búinn að taka fram úr olíuflutningabíl og er að fjarlægjast hann. Ég hægi þá á mér, fer aðeins út af og inn á aftur. Þá lendi ég á einhverri mishæð eða holu og tekst bara á flug,“ segir Ragnar þegar hann lýsir tildrögum slyssins. Hann er þakklátur fyrir að hafa verið í góðum hlífðarfatnaði á hjólinu. „Maður veit ekkert hvernig hefði farið ef ég hefði ekki verið í gallanum. Hann var það vel styrktur að hann stóð sjálfur. Hvernig hefði maður endað ef ég hefði ekki verið í gallanum? Ég er líka feginn að hafa verið með hjálminn en maður hefur alveg velt því fyrir sér hvort ég hafi fengið slink á hálsinn út af því að hjálmurinn var svo þungur. Maður veit ekki. Maður veltir þessu alveg fyrir sér.“ Ragnar hafði átt hjólið í rúmt ár og var ábyrgur ökumaður, stundaði ekki hraðakstur. Hann segir það algengt að fólk setji samasemmerki milli hraðaksturs og mótorhjóla. „Fólki finnst bara hjólin fara svo hratt vegna þess hve lítil þau eru og hversu hátt heyrist í þeim. Þetta hjól var til dæmis þannig að það fór bara að titra ef ég fór of hratt. Ég hjólaði því frekar hægt á því. Ég fór stundum inn í Hvalfjörð að hjóla og þá var maður bara að skoða í kringum sig og njóta umhverfisins. Oftar en ekki var bara tekið fram úr mér, ég var nú ekki á meiri ferð en það,“ útskýrir Ragnar.

 

Fékk sjö hjartaáföll

Ragnar man lítið eftir sér eftir slysið, enda slasaðist hann mjög illa og var haldið sofandi í langan tíma. „Ég man eftir því að hafa tekið fram úr þessum bíl en man lítið annað. Ég rankaði ekki við mér fyrr en átta mánuðum eftir slysið.“ Ragnar var á gjörgæslu í rúmar fjórar vikur eftir slysið þar sem hvert bakslagið kom á fætur öðru. Hann fékk lungnabólgu, sjö hjartaáföll og tvo stóra blóðtappa, í heilann og lungun. „Miðað við hvernig þetta leit út ætti ég að vera í öndunarvél. Þeir segjast aldrei hafa útskrifað neinn svona snemma úr þessu ástandi. Ég fékk þindarörvun, sem er smá straumur í þindina til að láta hana anda. En ég náði að blása mig úr henni og það eru bara þrír einstaklingar í heiminum sem hafa gert það,“ segir Ragnar. Í dag andar Ragnar án aðstoðar. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi fyrir rúmu ári og býr nú í íbúð á Akranesi. Hann þarf sólarhrings ummönnun og er því með starfsfólk á vöktum. Hann segir lífið oft á tíðum erfitt en þó komi góðir dagar inn á milli. „Það er mikill munur að vera kominn í íbúð. Ég get verið í tölvunni, horft á sjónvarpið og farið út í göngu- rúllutúr,“ segir hann og brosir. Ragnar er með búnað til að geta verið í tölvunni, hann er með höfuðbúnað sem stjórnar músinni. Hann hreyfir músina með því að hreyfa höfuðið og smellir með því að blása.

 

Selur alls kyns buff

Ragnar er nú að safna sér fyrir ferðalyftara, sem er búnaður sem getur fært hann í og úr stólnum. „Ég er hálf kyrrsettur hérna heima. Ég get fengið leigðan bíl sem hægt er að notast við en það myndi muna miklu að hafa ferðalyftara líka. Ég er með annan búnað í svefnherberginu heima en með ferðalyftara gæti ég fengið mér Lazy boy stól sem passar fyrir mig, sófa eða hvað sem er. Ég get nefnilega notað þetta hérna heima líka. Og ef ég ætla að fara á hótel einhvers staðar úti á landi þarf ég að eiga svona lyftara,“ segir hann.

Til að safna fyrir lyftaranum tók Ragnar upp á því að selja buff á Facebook. „Við vorum eitthvað að spá í að það væri sniðugt að prófa að safna fyrir þessu og ákváðum að prófa buffin. Ég tók fyrst lítið af þessu og þetta gekk ágætlega, þannig að á endanum tók ég stóra pöntun,“ segir Ragnar. Buffin sem hann selur nú á sölusíðunum Skagaskvísur sölusíða og Brask og brall á Facebook eru meðal annars með myndum af Hvolpasveitinni, Hello Kitty, hauskúpum og á einni tegundinni stendur Raggi nagli. „Það bætast við fleiri tegundir fljótlega, ég verð til dæmis með Spiderman og buff fyrir Írsku dagana á Akranesi. Það þarf frekar stóra pöntun fyrir hverja tegund, það er ekkert hægt að panta eitt eða tíu buff heldur þarf ég að panta mörg hundruð. En ég er bara að prófa að safna fyrir lyftaranum. Ef buffin seljast illa, þá skiptir það ekki máli. Það er eins og með Hvolpasveitarbuffin, það er nóg að vita að þau gleðja lítil hjörtu,“ segir Ragnar.

Að endingu vill Ragnar koma á framfæri þökkum til allra sem hafa komið að því að aðstoða hann eftir slysið. „Bæði þeim sem hjálpuðu til á slysstað, öllu því starfsfólki sem hefur veitt mér aðstoð, fjölskyldunni og öllum sem hafa hjálpað mér. Og auðvitað þeim sem kaupa buffin og styrkja mig.“

Þess má geta að þeir sem vilja styrkja Ragnar geta fundið auglýsinguna fyrir buffin á Facebook inni á sölusíðunum „Skagaskvísur“ og „Brask og brall“. Buffin kosta 1.500 krónur stykkið en séu keypt fleiri en fjögur fæst afsláttur. Þá eru mæðgurnar Andrea Þ Björnsdóttir og Sandra Björk einnig að selja lakkrís- og hlauppoka til styrktar Ragnari á 1.000 krónur stykkið.

Númerið á styrktarreikningi Ragnars er: 0186-26-012569. Kt: 110483-5119.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira