Frá undirritun samninganna. Frá vinstri Stefán Logi Haraldsson forstjóri Límtrés Vírnets, Stefán Smári Kristófersson í Ólafsvík, Agnar Gestsson og Jóhanna Ásgeirsdóttir á Lýsuhóli, Nadine E. Walter Stykkishólmi og Sigurður Guðjónsson frá Límtré Vírneti.

Límtré Vírnet selur þrjár nýjar reiðskemmur á Snæfellsnes

Segja má að hestamennska á Snæfellsnesi hafi tekið stórt stökk inn í framtíðina um síðustu helgi þegar skrifað var undir kaupsamninga vegna byggingar þriggja nýrra reiðskemma. Aðdragandinn er sá að fyrir nokkrum mánuðum tóku þrír aðilar á Snæfellsnesi sig saman og óskuðu eftir tilboðum í reiðskemmubyggingar. Þetta voru fulltrúar Hesteigendafélags Stykkishólms, Hestaeigendafélagið Hringur í Ólafsvík og ferðaþjónustubændurnir Agnar og Jóhanna á Lýsuhóli í Staðarsveit. Leitað var eftir tilboðum frá fjölmörgum fyrirtækjum og eftir ýtarlega skoðun á tilboðum, skoðunarferðir og vangaveltur var ákveðið að ganga til samningaviðræðna við Límtré Vírnet. Í lok sameiginlegs úrtökumóts vestlensku hestamannafélaganna Skugga í Borgarnesi, Faxa í Borgarfirði, Dreyra á Akranesi, Glaðs í Dalabyggð og Snæfellings á Snæfellsnesi, sem haldið var í Borgarnesi vegna Landsmóts hestamanna á Hólum, var gengið til undirritunar á samningum um byggingarnar.

Húsin sem byggð verða í Ólafsvík og Stykkishólmi eru nánast samskonar reiðhús að stærðinni 18 x 38 metrar. Húsið sem reist verður á Lýsuhóli verður nokkuð stærra, eða 20 m x 45 m. Við athöfnina í Borgarnesi um helgina þökkuðu kaupendur forsvarsmönnum Límtrés Vírnets fyrir frábæra þjónustu og bentu á að gleðilegt væri að það væri íslenskt famleiðslufyrirtæki sem hefði verið með hagstæðustu tilboðin. „Það er ljóst að bygging þessara húsa mun styrkja hestamennskuna á Snæfellsnesi verulega og auka lífsgæði þeirra fjölmörgu sem á þessu svæði búa og hafa hestamennsku sem áhugamál. Mjög mikið líf hefur verið í hestamennskunni á Vesturlandi þetta ár og mun það örugglega verða áfram,“ segir í tilkynningu frá félögunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir