Hreppslaug opnuð á morgun eftir endurbætur

Liðin eru 88 ár frá því Hreppslaug í Skorradal var byggð en hún er næstelsta 25 metra steinsteypta laug á landinu. Nú í byrjun sumars hafa staðið yfir framkvæmdir við laugina en eftir að hún var friðuð árið 2014 fékkst styrkur frá Minjastofnun til að laga laugarkerið sjálft. Þá var ákveðið að ráðast í frekari framkvæmdir og taka baðhúsið og laugarbakkann í gegn líka. Árið 1928 samdi Ungmennafélagið Íslendingur við landeigendur Efri-Hrepps um að fá land og leyfi til að nota heitt vatn úr uppsprettu á landareigninni fyrir sundlaug. „Það var gífurlegt afrek að byggja svona laug á þessum árum en það þurfti að flytja allt timbur og annað byggingarefni sjóleiðina frá Borgarnesi að Skiplæk við Skeljabrekku. Þá var mölin flutt langa leið á hestvögnum. Öll þessi vinna var að mestu unnin í sjálfboðavinnu og hefur mest allt viðhald og vinna við laugina síðan þá einnig verið unnin í sjálfboðavinnu af félögum Umf. Íslendings, en félagsmenn eru rétt um 200 talsins í dag,“ segir Guðrún Guðmundsdóttir í Efri-Hrepp.

Nánar er greint frá framkvæmdum við laugina í Skessuhorni, en stefnt er að enduropnun hennar á þjóðhátíðardaginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir