Guðmundur Óli Gunnarsson. Ljósm. ismus.is

Guðmundur Óli ráðinn skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi

Guðmundur Óli Gunnarsson hefur verið ráðinn í stöðu skólastjóra Tónlistarskólans á Akranesi. Hann tekur við af Lárusi Sighvatssyni sem lætur af störfum eftir að hafa gegnt því í þrjá áratugi. Guðmundur Óli hefur komið víða við á sínum starfsferli. Hann lauk námi í hljómsveitarstjórn við Utrechts Conservatorium í Hollandi en nam einnig um tíma hjá Jorma Panula í Helsinki. Hann starfað um 22 ára skeið sem aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og var fastur stjórnandi kammerhljómsveitarinnar Caput í 20 ár. Nú síðast starfaði Guðmundur Óli sem tónlistarstjóri Íslensku óperunnar en í það starf var hann ráðinn árið 2013. Hann hefur komið fram sem stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Kammersveitar Reykjavíkur auk þess að starfa mikið með kórum og hljómsveitum áhugamanna og nemenda. Þannig hefur hann m.a. verið stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna og Lúðrasveitar æskunnar á undanförnum árum. Guðmundur Óli hefur áður starfað sem tónlistarskólastjóri en hann starfaði í nokkur ár sem skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri.

 

Mikilvægt að leggja áherslu á heildina

Guðmundi Óla líst mjög vel á nýja starfið. „ Ég hlakka mikið til að hefja störf, kynnast skólanum og starfsfólki hans. Það fer gott orð af því starfi sem unnið hefur verið í Tónlistarskólanum á Akranesi og starfi skólasamfélagsins á Akranesi. Það eru um tuttugu ár síðan ég var síðast skólastjóri í tónlistarskóla svo það verður gaman að fá að starfa við þetta aftur. Ég hef komið víða við síðan ég var síðast skólastjóri og tel mig hafa öðlast mikla reynslu sem verður gaman að nýta í þágu tónlistaruppeldis“.

Guðmundur Óli segir að auðvitað verði einhverjar áherslubreytingar á starfi skólans með tilkomu hans. „Mannabreytingum fylgja alltaf einhverjar nýjar áherslur. Ég mun þó ekki fara í stórvægilegar breytingar fyrst um sinn. Fyrst er að kynnast starfinu, starfsfólkinu og starfsumhverfinu og sjá hvar tækifærin liggja. Mér finnst að bæjarfélag eins og Akranes þurfi að leggja áherslu á breiddina, stefna að því að öll börn fái góðan grunn í tónlist og rækta þannig heildina. Allt tónlistarlíf á Íslandi byggir á því starfi sem fram fer í grunn- og tónlistarskólum landsins. Þess vegna er mikilvægast að hlúa vel að jarðveginum, hann er forsenda alls,“ segir Guðmundur Óli að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir