Vinstri grænir ákveða forval í NV kjördæmi

Aðalfundur kjördæmisráðs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fór fram á Hvanneyri síðastliðinn laugardag. Þar var samþykkt að fram færi forval vegna komandi alþingiskosninga. Kosið verður um sex efstu sæti á framboðslistanum. Jafnframt var kosin kjörstjórn til að sjá um framkvæmd forvalsins og gera tillögu til kjördæmisráðs um uppröðun á framboðslista. Segja má að þetta sé stílbrot miðað við flest önnur kjördæmisfélög VG. Í Reykjavík, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi hefur nú þegar verið ákveðið að uppröðun verði viðhöfð við val á lista. Ekki liggur ljóst fyrir hvað kjördæmisráðið í Kraganum hyggst gera. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er hópur flokksmanna VG sem vildi knýja fram forval og vitað að fleiri munu bjóða sig fram gegn núverandi forystu. Þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi er Lilja Rafney Magnúsdóttir og fyrsti varaþingmaður Lárus Ástmar Hannesson. Á aðalfundi kjördæmisráðs var einnig kosin stjórn en hana skipa Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, formaður, Bjarki Þór Grönfeldt og Rún Halldórsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir