Frá íbúafundinum í gær. Ljósm. bþb.

Íbúafundur um hugsanlega komu flóttafólks til Bifrastar

Útlendingastofnun hefur lagt fram beiðni um að fá að leigja að hámarki átta hús á Bifröst fyrir flóttafólk. Beiðnin var rædd á íbúafundi sem haldin var í Háskólanum á Bifröst seinnipartinn í gær. Útlendingastofnun hefur í hyggju að leigja fjórar íbúðir í Reynihrauni og fjórar í Víðihrauni. Rósa Ragnarsdóttir, verkefnisstjóri í móttökuteymi Útlendingastofnunar, útskýrði málið fyrir íbúum á fundinum og sat fyrir svörum. Kom þar fram að ætlunin sé að á Bifröst komi einungis fjölskyldufólk af Balkanskaganum. Fyrst um sinn yrði samkomulagið um íbúðirnar aðeins tímabundið til þriggja mánaða. Með því yrði hægt að fá svör um það hvort hlutirnir gangi eins og ætlast er til. Útlendingastofnun sárvantar húsnæði fyrir flóttamenn vegna fjölgunar flóttafólks hingað til lands en aðeins eru þrjú sveitarfélög samningsbundin því að taka við flóttafólki. Það eru Reykjanesbær, Reykjavík og Hafnarfjörður. Rósa telur að fjölskyldufólkið geti spjarað sig betur í litlum samfélögum frekar en stórum þar sem fólk ætti til að gleymast í mannhafinu. Það kom einnig fram á fundinum að ef vel gengi eftir reynslutímann, sem yrðu þrír mánuðir, yrði fólkið á Bifröst að öllum líkindum í sex til níu mánuði.

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, tjáði sig um málið á fundinum. Hann sagði að málið hafi komið upp skyndilega en ekkert vera því til fyrirstöðu að þessi hús yrðu leigð út til Útlendingastofnunar. Hann benti á að á Bifröst væri ekki góð nýting á húsnæði og þau hús sem sóst væri eftir væru nú laus. Kom einnig fram í máli hans að ákvörðun um málið yrði tekin innan skamms því Útlendingastofnun þyrfti skjót svör. Starfsmenn Útlendingastofnunar sem staddir voru á svæðinu töluðu um að ef allt gengi eftir yrði flóttafólkið komið til Bifrastar á næstu vikum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir