Svipmynd frá ULM í Borgarnesi árið 2010. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Búist við þrettán þúsund gestum á Unglingalandsmót í Borgarnesi

Eins og kunngut er verður Unglingalandsmóti UMFÍ haldið í Borgarnesi eftir ríflega mánuð, um verslunarmannahelgina, dagana 28. til 31. júlí. Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB) sér um undirbúning og skipulag í samvinnu við UMFÍ. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri landsmóts og sinnir Eva Hlín Alfreðsdóttir því starfi. Þá er sérstök mótsnefnd UMSB að störfum. Unglingalandsmótið var síðast haldið í Borgarnesi árið 2010. Þar sem stutt er um liðið eru mannvirki til staðar og þekking að halda slíkt stórmót. Nú er búist við svipuðum fjölda og fyrir sex árum, eða um 1650 keppendum og að 13.000 manns sæki Borgarnes heim um verslunarmannahelgina.

Mótssvæði verður að mestu við íþróttamiðstöðina í Borgarnesi, en einnig verður keppni á golfvellinum að Hamri, á svæði hestamannafélagsins Skugga, í grunnskólanum í Borgarnesi, Menntaskóla Borgarfjarðar, húsnæði SkotVest í Brákarey og á Akrabraut, motocrosssvæðinu á Akranesi. Tjaldbúðir verða í landi Kárastaða ofan við iðnaðarsvæðið á Sólbakka í Borgarnesi. Kapp verður lagt á að tjaldsvæðisgestir þurfi ekki að fara á einkabílnum á milli tjaldbúða og keppnisstaða og verða því tíðar rútuferðir í upphafi og lok keppnisdaga en með reglubundnum hætti þess á milli.

Í bréfi sem þjónustuaðilum í Borgarnesi hefur verið sent eru þeir hvattir til að vera vel viðbúnir fjölda gesta. Þá verður opinn íbúafundur haldinn í Hjálmakletti fimmtudagskvöldið 23. júní frá 20:00-21:00 þar sem frekari upplýsingar um framkvæmd mótsins verða kynntar og tekið við ábendingum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira