Sveitarfélagið sver af sér tengsl við lúpínueyðingu

„Af gefnu tilefni er áréttað að Borgarbyggð hefur ekki skipulagt herferð gegn útbreiðslu lúpínu í landi sveitarfélagsins,“ segir í tilkynningu sem sett var inn á vef Borgarbyggðar í dag. Tilefnið er frétt í gær þess efnis að hópur fólks hyggst koma saman í holtinu við Landnámssetrið í Borgarnesi og uppræta þar lúpínu sem orðin er ríkjandi gróður í Búðarkletti. „Lúpínuátak sem auglýst er á Búðarkletti miðvikudaginn 15. júní einskorðast við Búðarklett  og er því einungis um örlítið brot af þeirri lúpínu sem náð hefur fótfestu í bæjarlandinu að ræða.  Þegar sótt var um styrk til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vegna Söguhringsins í Borgarnesi, var hluti af umsókninni umhverfisátak á þessu afmarkaða svæði, sem felst í því að eyða ágengum tegundum og gera tilraun til að halda í það gróðurfar sem fyrir er á klettinum, sem er að mestu graslendi,“ segir í frétt Borgarbyggðar og vísað í styrkveitinguna.

Í lok tilkynningar á vef Borgarbyggðar segir að til að uppræta ágengar tegundir líkt og lúpínu þarf langtíma áætlun og mikla vinnu og slík stefna hefur ekki verið mörkuð í sveitarfélaginu. „Þannig má ætla að þrátt fyrir að það náist árangur í að halda lúpínu í skefjum á afmörkuðum stað á Búðarkletti, sé talsvert af öðrum svæðum þar sem lúpínan fær að vaxa óáreitt.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir