Frá afhjúpun minnisvarðans í veðurblíðunni í Hólminum á sjómannadaginn. Á myndinni eru frá vinstri: Baldvin Guðmundsson, Sigvaldi Arason og Guðlaug Kristjánsdóttir. Þau eru öll afabörn Sigvalda heitins skipstjóra á Blika. Ljósm. sá.

Afhjúpuðu minnisvarða um áhöfn mótorbátsins Blika

Á sjómannadaginn sunnudaginn 5. júní var afhjúpaður í Stykkishólmi minnisvarði um áhöfnina á mótorbátnum Blika frá Stykkishólmi sem fórst með sjö manna áhöfn 28. janúar árið 1924. Minnisvarðinn er eftir listamanninn Pál Guðmundsson á Húsafelli. Var hann settur upp að frumkvæði Sigvalda Arasyni, sem var eitt afabarna Sigvalda Valentínussonar sem var skipstjóri á Blika í hans hinstu för.

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólms flutti ávarp við afhjúpun minnisvarðans og þakkaði afkomendum Sigvalda Valentínussonar þann sóma sem minningu skipshafnarinnar var sýndur með höggmyndinni. „Listaverkið og minningin sem það dregur fram mun verða ævarandi áminning um þær hættur sem siglingum og sjósókn fylgja við strendur landsins. Sjóslysið þegar Bliki fórst með allri áhöfn hefur verið mikið áfall fyrir þá 600 íbúa sem bjuggu hér árið 1924. Íbúar í Stykkishólmi voru á þessum tíma að fást við afleiðingar samdráttar í atvinnulífinu sem hafði alvarleg og neikvæð áhrif á afkomu heimilanna og bæjarlífið. Á árunum 1920 til 1930 fækkaði íbúum hér úr 700 í um 500 sem var mikið högg þessu samfélagi. Og heimskreppan var ekki langt undan,“ rifjaði Sturla upp.

Sturla sagði jafnfram að Stykkishólmshöfn væri einstök frá náttúrunnar hendi og um höfnina fara á hverju ári þúsundir ferðamanna sem njóta þess að ferðast um Snæfellsnesið eða sigla um Breiðafjörðinn til þess að njóta fegurðar sem vissulega er til staðar. „Það munu því margir eiga eftir að dást að þessum glæsilega minnisvarða og far með þessa myndrænu minningu með sér. Minningu um sjómennina sjö og fjölskyldur þeirra er greipt af listamanninum í steininn sem var sóttur alla leið á Kaldadal fyrir ofan Húsafell, sem er á sinn hátt táknrænt,“ sagði Sturla.

Líkar þetta

Fleiri fréttir