Vegurinn upp hraun skömmu áður en komið er að Norðlingafljóti.

Voru að æfa sig að hitta flugur með flotholti..

„Þeim var vísað aftur heim með skottið á milli lappanna, eins og vaninn er við þessar aðstæður,“ sagði Snorri Jóhannesson veiðivörður á Arnarvatnsheiði í samtali við Skessuhorn. Um miðja vikuna tóku tveir menn sig til og óku að Úlfsvatni á Arnarvatnsheiði, þrátt fyrir að veiði sé ekki heimiluð þar fyrr en 15. júní. Þegar til þeirra náðist báru þeir því við að hafa verið að æfa fluguköst. „Það voru eiginlega dálítið óvenjuleg fluguköst. Þeir höfðu nefnilega beitt ormi og hafa því líklega ætlað að æfa það að hitta flugur með flotholtinu,“ sagði Snorri sem kunni ekki aðrar skýringar á háttarlagi mannanna.

Starfsmenn á vegum Veiðifélags Arnarvatnsheiðar hafa að undanförnu verið að standsetja veiðihús og lagfæra vegaslóða. Meðal annars var farið með vinnuvélar og vaðið yfir Norðlingafljót áleiðis í Úlfsvatn fært og lagað. Eins og fyrr segir geta veiðimenn keypt veiðileyfi á Arnarvatnsheiði frá og með næsta miðvikudegi, 15. júní. Þá fyrst má æfa fluguköst!

Líkar þetta

Fleiri fréttir