Norðurálsmótinu lýkur í dag

Ekki er ofsögum sagt að líf og fjör hefur verið á Akranesi um helgina. Íbúatalan tvöfaldaðist og má fyrst og fremst þakka það Norðurálsmótinu í knattspyrnu 6-8 ára sem ÍA stóð fyrir. Auk þess hefur m.a. verið á dagskrá golfmót og torfærukeppni. Bærinn hefur iðað af lífi og hvarvetna hefur verið tjaldað á grænum blettum. Um 1500 keppendur tóku þátt í mótinu en þeim fylgja fjölskyldur; systkini, afar, ömmur, foreldrar og fleiri. Í gær var risakvöldvaka í Akraneshöllinni þar sem Pollapönk hélt uppi stemningu. Á sama tíma var foreldrum boðið upp á kaffiveislu af fínustu sort. Allt um þetta má sjá á Facebook síðu Knattspyrnufélags ÍA. Hún er ríkulega myndskreytt og bráðgóð. Varað er við myndbandi af kökum í foreldrakaffi. Slíkur fjöldi kræsinga og kaloría hefur ekki komið saman á einum stað á Akranesi fyrr né síðar. Þeir gestir sem Skessuhorn hefur rætt við meðan mótið hefur staðið yfir eru himinlifandi með aðbúnað, skipulagningu og mótið í heild. Veður hefur verið ágætt, örlítil væta bleytt í gestum, en gott veður að öðru leyti bætt það upp.

Líkar þetta

Fleiri fréttir