Torfærukeppni við Akrafjall á morgun

Á morgun, laugardaginn 11. júní, fer fram torfærukeppni á Fellsenda við austanvert Akrafjall. 20 keppendur eru skráðir til leiks, 16 á sérútbúnum bílum og fjórir á götubílum. Búist er við hörku keppni. „Það verða fimm umferðir í Íslandsmeistaramótinu í torfæru í sumar og þetta er önnur þeirra. Sú fyrsta fór fram á Hellu í byrjun maí,“ segir Helga Katrín formaður Torfæruklúbbsins í samtali við Skessuhorn. „Það eru allir mjög spenntir að keppa á þessari braut. Það hefur ekki verið keppt á þessu svæði í 15 ár núna. Þegar keppt var um aldamótin síðustu á svæðinu var reyndar keppt í gryfjunni við hliðin á þeirri sem við munum nota á laugardag. Þetta er vinsælt svæði og það fagna allir að það sé loksins verið að fara að keppa þar. Það er erfitt að finna góð svæði á Íslandi þar sem hægt er að vera með góðar gryfjur,“ segir Helga Katrín.

Svæðið þurfti að gangast undir töluverðar breytingar fyrir keppnina. „Við höfum verið að vinna á svæðinu og gjörbreytt því meðal annars með jarðýtu. Eftir þá vinnu munum við síðan fara með 20 tonna beltagröfu og fjarlæga stórgrýti en það er nokkuð mikið af því á svæðinu.“

Helga Katrin segir að torfæran sé í sókn í augnablikinu. „Í fyrra voru að meðaltali 15-18 bílar að keppa en á keppninni á Hellu í fyrstu umferð voru 26 bílar sem kepptu. Í keppninni 11. júní verða 20 bílar og við búumst við að það verði svoleiðis út sumarið. Það eru margir nýir keppendur. Það eru sex keppendur núna að keppa sem hafa litla sem enga reynslu á torfærukeppnum og það er mjög skemmtilegt,“ segir Helga og hvetur fólk á Akranesi og nágrenni að kíkja á keppnina sem hefst klukkan 13:00 á laugardaginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir