Á Kúludalsá fyrr í þessum mánuði. Ljósm. mm.

Telja að veikindi í hrossum á Kúludalsá megi rekja til flúormengunar

Jakob Kristinsson prófessor og Sigurður Sigurðsson dýralæknir segja í nýrri skýrslu, sem þeir unnu að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að endurtekin veikindi hrossa á bænum Kúludalsá í Hvalfirði megi rekja til flúormengunar fá álverinu á Grundartanga. Að minnsta kosti helmingur hrossanna á Kúludalsá hafa veikst og megi rekja það til efnaskiptaröskunar sem kallar equine metabolic syndrome (EMS). „Engar rannsóknir hafa farið fram á tíðni þeirrar efnaskiptaröskunar í íslenskum hrossum. Veikindi af hennar völdum virðast fátíð í erlendum hrossastofnum,“ segja skýrsluhöfundar. Þá segja þeir einnig að eftir að hafa fylgst með fóðrun hrossa á Kúludalsá, hagagöngu, holdafari og einkennum sjúkdómsins telja þeir nánast útilokað að rekja megi veikindi þeirra til offóðrunar eða rangrar meðferðar, en það eru taldir helstu áhættuþættir EMS. „Þegar tekið er mið af styrk flúoríðs í beinum hrossa, sem felld hafa verið, er enginn vafi á að flúormengun á bænum er umtalsverð. Er styrkur hans í beinum um fjórfalt hærri en á svæðum þar sem ekki gætir flúormengunar af völdum eldvirkni eða iðjuvera. Að öllu samanlögðu telja skýrsluhöfundar líklegt að veikindi hrossanna á Kúludalsá megi rekja til flúormengunar. Þessar ályktanir eru dregnar af niðurstöðum erlendra rannsókna og þeim rannsóknum skýrsluhöfunda, sem lauk fyrir 1. maí 2016.“

 

Telja að ekki verða lengra komist með rannsóknir

Í lokaorðum sínum segja þeir Jakob og Sigurður ljóst að ekki verði lengra komist með rannsóknum á hrossunum á Kúludalsá eingöngu. „Ef komast á nær hinu rétta er nauðsynlegt að gerð verði rannsókn á afdrifum flúoríðs í íslenskum hrossum. Ef til vill yrði þá síðar hægt að gera vandaða rannsókn á langtímaáhrifum flúoríðs í hrossum. Slíkar rannsóknir eru ekki á færi skýrsluhöfunda. Þar þarf að koma til aðstaða, mannafli og sérfræðingar á ýmsum sviðum dýralækninga og eiturefnafræði.“

 

Matvælastofnun á annarri skoðun

Í kjölfar útgáfu skýrslunnar sendi Matvælastofnun frá sér tilkynningu þar sem stofnunin andmælir niðurstöðum skýrsluhöfunda um að veikindin megi rekja til flúormengunar. Stofnunin telur helstu orsakir EMS vera offóðrun og takmörkuð hreyfing og sé sjúkdómurinn nokkuð algengur í hrossum sem hafa litlu hlutverki að gegna. Matvælastofnun bendir á að sú efnaskiptaröskun sem um ræðir í hrossunum á Kúludalsá sé í raun varanlegt ástand og læknist ekki við breytingar á fóðrun og meiri hreyfingu. „Matvælastofnun berast reglulega ábendingar um vandamál af þessum toga og þeirra verður vart við reglubundið eftirlit með hrossahjörðum og í sláturhúsum. Út frá þeim óformlegu upplýsingum sem liggja fyrir um útbreiðslu sjúkdómsins er ekkert sem bendir til annars en að hann komi fyrir í öllum landshlutum og engin vísbending er um að hann sé algengari í Hvalfirði en annars staðar,“ segir í yfirlýsingu Matvælastofnunar. Þá segir einnig: „Hafa ber í huga að efnaskiptaröskun sú sem hér um ræðir er í raun varanlegt ástand og læknast því ekki við breytingar á fóðrun þó þannig sé hægt að halda sjúkdómseinkennum niðri að einhverju leyti. Mikil hætta er á að aðgangur að auðleystum sykrum svo sem í grasi eða heyi kalli einkennin fram á ný þrátt fyrir að tekist hafi að grenna hrossið og hreyfing hafi verið aukin. Þetta skýrir misvísandi ályktanir MAST og skýrsluhöfunda. Árið 2011 leiddi skoðun Mast sannanlega í ljós að flest hrossanna voru of feit, en skýrsluhöfundar mátu sömu hross ekki mjög feit árið 2013. Því fer fjarri að hægt sé að útiloka offitu sem orsök veikinda hrossa á Kúludalsá eins og skýrsluhöfundar gera.“ Matvælastofnun andmælir því þeirri ályktun skýrsluhöfunda að nánast útilokað sé að rekja megi veikindi hrossanna á Kúludalsá til offóðrunar eða rangrar meðferðar og að orsök EMS/IR í hrossunum á Kúludalsá megi líklega rekja til flúormengunar.

 

„Skýrsla Sigurðar og Jakobs stendur“

Ragnheiður Þorgrímsdóttir bóndi á Kúludalsá fagnar útkomu skýrslu þeirra Jakobs og Sigurðar. Jafnframt harmar hún ómálefnaleg viðbrögð starfsmanna Matvælastofnunar við niðurstöðum hennar. „Fyrst afstaða Matvælastofnunar er þessi, að hrekja án nokkurra rannsókna niðurstöðu þeirra Jakobs og Sigurðar, þá get ég ekki annað en skorað á Matvælastofnun að láta fara fram rannsóknir þannig að stofnunin geti hrakið niðurstöðu skýrslunnar með málefnalegum hætti. Þangað til Matvælastofnun lætur vinna slíkar rannsóknir þá stendur að sjálfsögðu niðurstaða Jakobs og Sigurðar,“ segir Ragnheiður í samtali við Skessuhorn. Jafnframt hyggst hún nú óska eftir viðbrögðum sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar við þeim upplýsingum sem komið hafa fram um að flúormengun frá starfsemi stóriðju á Grundartanga sé langt yfir viðmiðunarmörkum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir