Ljósmyndasýning opnuð á morgun í Skorradal

Ljósmyndasýning verður opnuð við hátíðlega athöfn í Skorradal á morgun, laugardag kl. 17:00. Um er að ræða samvinnuverkefni Kristínar Jónsdóttur ljósmyndara á Hálsum og Huldu Guðmundsdóttur á Fitjum. Sýningin, sem ber nafnið „Eyðibýli í Skorradal allt árið,“ verður haldin á Stálpastöðum en þar er eitt af eyðibýlunum í dalnum. Skessuhorn hafði samband við Kristínu og ræddi við hana um sýninguna. „Hugmyndin kviknaði eftir að Hulda hafði samband við mig vorið 2014 og vildi fara af stað með eitthvað verkefni úr Skorradalnum. Upphaflega var ætlunin að mynda Skorradal allt árið. Við þrengdum þetta svo niður í eyðibýli í dalnum, bæði vegna þess að Hulda hefur mikinn áhuga á þeim og veit margt um þau og vegna þess að ég hef alltaf heillast af öllu svona gömlu, og er kannski bara pínu gömul í mér,“ segir Kristín og hlær.

„Við erum með mjög skemmtilega uppsetningu á sýningunni. Hluti af myndunum eru inni í gamalli hlöðu og hluti af þeim eru út, fyrir aftan hlöðuna. Myndirnar leiða mann áfram í gegnum sýninguna. Það þarf að ganga um 150 metra frá bílastæði, upp gamla veginn að bænum. Fólk getur komið og skoðað myndirnar hvenær sem er sólarhringsins. Birtan og veðrið gæti því haft áhrif á sýninguna fyrir fólk, sem er mjög skemmtilegt,“ segir Kristín og bætir því við að það sé að sjálfsögðu mikill kostnaður á bak við svona sýning, en Uppbyggingarjóðurinn styrkir verkefnið, og myndirnar verða til sölu, en þetta er ákveðin áhætta fyrir Kristínu og Huldu. „Við ætlum því að hafa uppi myndavélakerfi til öryggis en við vonum að þetta fái að vera í friði og erum bjartsýnar á að svo verði,“ segir hún. Ef allt gengur vel verður sýningin opin fram í lok ágúst og er planið að enda hana á myndrænan hátt 19. ágúst heima hjá Huldu á Fitjum. „Við erum enn að útfæra það en planið er að varpa myndunum, og fleiri myndum til, upp á hlöðuvegg. Og það verður eitthvað svona skemmtileg og flott lokun á þessari sýningu þar,“ segir Kristín.

Líkar þetta

Fleiri fréttir