Húlladúlla mætir í Skallagrímsgarðinn í dag

Húlladúllan verður í Skallagrímsgarði í Borgarnesi klukkan fjögur í dag með heila hrúgu af húllahringjum. Að viðburðinum stendur brottfluttur Borgnesingur; Unnur María Bergsveinsdóttir, sem gerði garðinn frægan í frjálsum. Hljóp meðal annars 800 og 1500 metra hlaup fyrir UMSB. Unnur María lærði sagnfræði en eftir bankahrun yfirgaf hún Ísland í leit að ævintýrum og fór til Mexíkó þar sem hún kynntist sirkusnum. Hún starfar nú sem sirkuslistakona. Unnur, eða Húlladúllan eins og hún kallar sig á Facebook, hefur á nokkurra ára sirkusferli sínum sérhæft sig í húllahringjum. Hún varð nýlega sjálfstætt starfandi húlladansari eftir að hafa unnið síðastliðin þrjú ár með Sirkus Íslands.

Unnur María verður með litla krakkahringi, hringi fyrir fullorðna og nokkra risahringi fyrir sérstaklega hávaxna byrjendur í Skallagrímsgarði. „Húllafjörið og kennslan er ókeypis en þáttakendur eru hvattir til að leggja nokkra aura í söfnunarkrukkuna svo Húlladúllan geti sett bensín á bílinn, borgað í göngin og komið aftur með ennþá fleiri hringi fyrir næsta húllafjör. Húlladúllan gerir frábæra húllahringi og þeir sem vilja eignast góðan hring geta keypt hjá henni hring í dag í litum að eigin vali. Það geta allir lært að húlla og það er ótrúlega gaman! Komið og prófið og hefjum helgina saman á húllasveiflu,“ segir Unnur María.

Líkar þetta

Fleiri fréttir