Atriði úr myndinni, en rætt er við 18 Borgnesinga, hér við Elínu Magnúsdóttur.

Söfnun lokið fyrir gerð stuttmyndar í Borgarnesi

Undanfarið hefur verið safnað fyrir íslensku stuttmyndinni „Pourquoi Pas Borgarnes“ á hópfjármögnunarvefnum Karolinafund. Söfnunin bar góðan árangur og hefur nú allri upphæðinni, rúmlega 447 þúsund krónum, verið safnað. Það er myndlistarkonan Michelle Bird sem er framleiðandi myndarinnar ásamt Kuba Urbaniak en leikstjóri er Alberto Garcia. Stuttmyndin er í viðtalsformi og í henni eru átján íbúar í Borgarnesi spurðir að því hvernig list hefur haft áhrif á líf þeirra eða hvernig hún hefur breytt lífi þeirra. Sýna viðtölin hvernig viðmælendur meta listir og menningu og er leitast við að svara þeirri spurningu hvers vegna list er nauðsynleg í lífinu og hvernig þeir sjá fyrir sér fyrirmyndar menningarsamfélag. Myndin var öll tekin upp í Borgarnesi og nágrenni í samvinnu við Borgnesinga. Afrakstri stuttmyndarinnar er ætlað að gefa vísbendingu um hvað það er sem íbúar vilja fá út úr listastarfi og gæti því verið upphafið að því að móta verkefni framtíðarinnar. Nú er unnið að klippingu myndarinnar, hönnun á DVD umslagi og leitað að hugsanlegum sýningarstöðum. Til stendur að vinnslu stuttmyndarinnar verði lokið í júlí 2016 og hún gefin út með haustinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir