Svipmynd frá mótinu í fyrra.

Metfjöldi væntanlegur á Skagann vegna Norðurálsmóts

Það verður nóg um að vera á Akranesi um helgina, frá 10.-12. júní, þegar Norðurálsmótið í knattspyrnu fer fram. Gestir taka að streyma í bæinn í dag og koma sér fyrir á þar til gerðum tjaldstæðum. Að þessu sinni verða 33 félög með keppendur á mótinu en alls eru 1500 knattspyrnumenn skráðir til leiks. Mótið er fyrir aldursflokkinn 6-8 ára og að sögn mótshaldara hjá ÍA verða keppendur um 50 fleiri en fyrir ári síðan. „Í janúar á þessu ári var tekin ákvörðun um að færa mótið framar í dagatalinu vegna lokakeppni Evrópumóts karlalandsliða í Frakklandi og virðist sú ákvörðun hafa tekist vel,“ segir Sigurður Arnar Sigurðsson sem er í hópi fjölmargra í baklandi Knattspyrnufélags ÍA sem kemur að skipulagningu Norðurálsmótsins. Hann var jafnframt einn af frumkvöðlunum að setja slíkt mót á laggirnar árið 1985 þegar mótið fór fram í fyrsta sinn. „Við búumst við 6000-7000 manns á Akranes á meðan mótið stendur yfir. Íbúatalan hér á Akranesi mun því tvöfaldast, en það er gaman að fá marga gesti á þetta frábæra mót. Skagamenn munu taka vel á móti gestum og keppendum. Í ár verður eitt lið frá Nuuk á Grænlandi og er þetta í fyrsta sinn sem erlendir gestir koma á Skipaskaga á Norðurálsmótið og við fögnum heimsókn vina okkar frá Grænlandi,“ segir Sigurður Arnar.

Hátt í þúsund sjálfboðaliðar, flestir foreldrar barna sem stunda íþróttir á Akranesi, koma að vinnu við undirbúning og framkvæmd mótsins. Leikirnir verða spilaðir á æfingasvæði ÍA sem nær frá Akraneshöllinni að Höfða auk þess sem spilað verður í sjálfri höllinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir