Útskrifaðist með hæstu einkunn í sögu skólans

Brautskráning frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga var 27. maí síðastliðinn. Meðal þeirra sem lauk stúdentsprófi frá skólanum var Viktoría Ellenardóttir, með einkunnina 9,74, hæstu meðaleinkunn í sögu skólans. Viktoría lauk náminu á þremur árum og hlaut einnig viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræði, tungumálum, raungreinum, íslensku, spænsku og ensku. Að sögn Viktoríu var það alls ekki markmið hennar að dúxa en hún er mjög ánægð með árangurinn. „Ég var alls ekki að búast við þessu og öllum þessum verðlaunum sem ég fékk á útskriftardaginn,“ segir hún kát. Viktoría segir það hafa krafist góðrar skipulagningar að ná þessum árangri í skólanum. „Ég hef verið að vinna með skólanum síðan ég var þrettán ára og hef því þurft að skipuleggja mig í kringum það. Ég var líka að æfa fótbolta en hætti fyrir ári síðan. Núna fer ég bara í ræktina og reyni að komast átta sinnum í viku þar sem ég fylgi prógrammi frá þjálfara.“ Viktoría sinnti náminu vel og lærði heima daglega. „Ég hefði kannski ekki þurft þess en ég viðurkenni það alveg sjálf að ég er með smá fullkomnunaráráttu og vildi gera mitt besta,“ segir hún.

Nánar er rætt við Viktoríu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir