Það kom dúxinum sjálfum mest á óvart að hann væri hæstur

Kristinn Bragi Garðarsson lauk stúdentsprófi af náttúrfræðibraut Fjölbrautaskóla Vesturlands í lok síðasta mánaðar. Hann hlaut viðurkenningu fyrir bestan árangur á stúdentsprófi á vorönn 2016 og fyrir ágætan árangur í stærðfræði. Kristinn Bragi segir í samtali við Skessuhorn að sér hafi alltaf gengið sæmilega í námi og að hann hafi í raun aldrei þurft að hafa fyrir því að læra mikið. Það kom honum í opna skjöldu að hafa náð þeim árangri að verða dúx skólans. „Þetta kom mér svolítið á óvart. Við athöfnina var ég bara að horfa niður, örugglega að hugsa eitthvað um fæturna á mér. Svo heyrði ég allt í einu nafnið mitt nefnt,“ segir hann. Kristinn segir þó alveg eins hafa átt von á því að fá viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði enda hafi hann alltaf átt gott með að læra hana. „Ég setti mér það markmið að fá minnst 8 í öllu og mér fannst það gott markmið. Það er ekki of hátt og það skapar ekki óþarfa stress að reyna að ná þessari einkunn.“

Nánar er rætt við Kristinn Braga í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir