Frá Búðardal. Ljósm. úr safni sm.

Fasteignamat á Vesturlandi hækkar mest í Dalabyggð

Þjóðskrá Íslands tilkynnir fasteignaeigendum í júní ár hvert um nýtt fasteignamat. Nýtt mat tekur gildi 31. desember 2016 og gildir fyrir árið 2017. Fasteignamatið er notað sem grunnur við álagningu sveitarfélaga á fasteignagjöldum, en þau leggja eins og kunnugt er mismunandi háa álagningarprósentu ofan á þann grunn. Heildarfasteignamat á landinu hækkar um 7,8% að jafnaði og hækkar mat tæplega 95% eigna í landinu en rúm 5% eigna lækka í mati. Á Vesturlandi hækkar fasteignamat um 6,9% að meðaltali en misjafnlega mikið eftir sveitarfélögum. Þannig hækkar það mest í Dalabyggð um 9,3% og í Stykkishólmi um 9,1%. Á Akranesi er hækkunin 6,6%, í Borgarbyggð 5,3%, í Skorradalshreppi 5,8%, í Grundarfirði 5,1%, í Helgafellssveit 2,4%, í Snæfellsbæ 3,1% og í Eyja- og Miklaholtshreppi hækkar það minnst, eða um 2,2%.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkar fasteignamat um 8,8%, á Suðurnesjum 6,8%, á Vestfjörðum 6,9%, á Norðurlandi eystra 5,7%, á Austurlandi um 5,6%, Suðurlandi um 4,8% en á Norðurlandi vestra hækkar það einungis um 0,2% að meðaltali. Fasteignamat utan höfuðborgarsvæðisins hækkar mest á Vopnafirði um 12,1%, í Vesturbyggð um 12% en lækkar hins vegar mest í Akrahreppi í Skagafirði um 4,8% og á Blönduósi um 3,6%.

Fasteignaeigendur geta nálgast matið á skra.is með því að slá inn götuheiti eða haft samband við Þjóðskrá Íslands og óskað eftir því að fá tilkynningaseðilinn sendan með bréfpósti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir