Þokkalega var sprottið eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem samsett er úr báðum slægjunum (Belgsholt til vinstri og Vestri-Reynir til hægri).

Vinnumennirnir hófu slátt meðan bændur brugðu sér af bæ

Sláttur hófst á tveimur jörðum í Hvalfjarðarsveit í Borgarfirði í gær, mánudaginn 6. júní. Á bæjunum Vestra-Reyni undir Akrafjalli og Belgsholti í Melasveit. Gaman er að segja frá því að á báðum bæjum voru það vinnumennirnir sem tóku þá ákvörðun að hefja slátt þegar bændurnir sjálfir höfðu brugðið sér bæjarleið. Haraldur bóndi á Reyn fór á landsleik í fótbolta með syni sínum en Haraldur í Belgsholti þurfti að skreppa með spaða úr vindmyllu sinni til viðgerðar á Akureyri. „Strákarnir hafa vafalítið verið búnir að hafa Bubba í eyrunum allan daginn og sá gamli komið þeim í þetta stuð,“ sögðu þeir Haraldar báðir þegar Skessuhorn ræddi við þá í morgun, ánægðir með framtakssemi vinnumanna sinna. Eins og fram kom í fréttum í gær varð Bubbi Morthens stórsöngvari 60 ára í gær og hljómuðu lög hans á öllum útvarpsrásum liðlangan daginn. Á báðum þessum jörðum í Hvalfjarðarsveitinni er búið með kýr og því dýrmætt að ná góðum heyjum þetta snemma. Spretta hefur verið mikil undanfarna daga um gjörvalt Vesturland enda hlýtt í veðri og jörð sæmilega rök. Búast bændur sem Skessuhorn ræddi við að almennt hefji menn slátt um eða upp úr miðjum júní þar sem tún eru friðuð. Góð veðurspá er fyrir næstu viku.

Líkar þetta

Fleiri fréttir