Meirihluti samþykkti skotæfingasvæði og motokrossbraut

Á fundi í umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar í gær voru tvö mál tekin til afgreiðslu og samþykkt af meirihluta nefndarmanna sem breyting á aðalskipulagi. Annars vegar var til umræðu fyrirhugað skotæfingasvæði og hins vegar motokrossbraut. Tillögurnar fara nú til formlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn.

Nefndin samþykkti að fela skipulagsfulltrúa að ganga frá svörum við athugasemdum sem bárust vegna breytinga á aðalskipulagi vegna skotæfingasvæðis ofan við Borgarnes. Í fundargerð segir að niðurstaða hávaðamælinga úr rannsókn Trivium hafi verið sú að hávaði vegna fyrirhugaðs skotæfingasvæðis sé undir hávaðamörkum nema þegar fimm eða fleiri rifflar eru notaðir í einu. Því leggur nefndin til að auglýst verði deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði. Settar verði kröfur um byggingu skothúss og hljóðmanir verði hannaðar eftir ítrustu kröfum til að dempa hljóð inn í skipulagið. Einnig verði opnunartíma settar skorður og hvað margar byssur megi nota í einu. Meirihluti nefndarinnar samþykkti tillöguna en Björk Jóhannsdóttir var á móti.

Þá var á sama fundi kynnt niðurstaða hávaðamælinga úr rannsókn Trivium vegna staðsetningar motokrossbrautar. Niðurstaða mælinga hafi leitt í ljós að hávaði vegna fyrirhugaðrar motokrossbrautar sé undir hávaðamörkum nema þegar keppnir þar sem fleiri hjól en 12 eru í brautinni. „Lagt er til að farið verði í aðal- og deiliskipulagsvinnu við svæðið en sett verði inn í deiliskipulag að hámarksfjöldi hjóla í braut geti mest verið 12 og eins verði opnunartíma settar skorður. Lagt er til að verkefnið verði til reynslu og endurmetið eftir 3-5 ár. Haldinn verði samráðsfundur með hagsmunaaðilum,“ segir í fundargerð umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar. Líkt og með tillögu um skotæfingasvæðið voru allir nefndarmenn utan einn sem greiddu tillögunni atkvæði. Björk Jóhannsdóttir lét bóka mótmæli við staðsetningu Motokrossbrautarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir