Lög um húsnæðismál og greiðsluþátttöku í heilsugæslu

Alþingi samþykkti í síðustu viku fjölmörg lög. Meðal þeirra voru með stuðningi allra þingflokka samþykkt fjögur húsnæðismál félags- og húsnæðismálaráðherra; um almennar íbúðir, húsnæðisbætur, húsnæðissamvinnufélög og húsaleigulög. Með þeim er lagður grunnur að nýju leiguíbúðakerfi, auknum fjárhagslegum stuðningi við leigjendur, styrkari umgjörð húsnæðissamvinnufélaga og auknum réttindum leigjenda. Velferðarnefnd afgreiddi einnig frumvarp um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Með lögunum er heilsugæslan efld sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga og tryggingavernd vegna heilbrigðisþjónustu aukin. Forsenda þess að einhugur náðist um afgreiðslu málsins var loforð ríkisstjórnarinnar um auknar fjárveitingar til heilsugæslunnar og til nýs greiðsluþátttökukerfis. Í nefndaráliti velferðarnefndar kemur fram að á fjáraukalögum þessa árs verði bætt við 300 – 400 milljónum í heilsugæsluna til að fjölga stöðugildum lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga. Þá mun nýtt greiðsluþátttökukerfi taka gildi 1. febrúar 2017. Með innleiðingu þess er stefnt að því að enginn greiði meira en 50.000 kr. á ári, í stað 95.000 kr. eins og frumvarpið kvað á um, fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga. Fjármunir til að lækka greiðsluþakið verða tryggðir í fjárlögum fyrir árið 2017.

Líkar þetta

Fleiri fréttir