Þarna við afleggjarann að Kvistási og Laufási hafa íbúar talið allt upp í sjö bíla sem lagt hefur verið á veginn með augljósri slysahættu. Ljósm. bs.

Greinilega slysahætta á fjölförnum útsýnisstað

Samhliða vaxandi umferð erlendra ferðamanna um landið eykst þörfin fyrir að gerð verði útskot og bílastæði við þjóðvegina þar sem fólk getur stoppað. Bílar í vegköntum, eða jafnvel kyrrstæðir á miðjum vegum, skapa augljósa hættu. Nokkrir staðir skera sig úr hvað þetta snertir. Í Laufásbrekku á Mýrum ofan við Sjávarfossinn eru bílar oft kyrrstæðir og fólk að skoða fossinn og fegurðina þar sem Langá rennur síðasta spölinn til sjávar. Þetta er aðalleiðin á Snæfellsnes og því geisimikil umferð. Skömmu sunnar er blindhæð og bílar því oft á full mikilli ferð miðað við aðstæður. Vegrið er sjávarmegin á veginum og við það er einmitt algengt að fólk stoppi. Heimamenn í Kvistási og Laufási hafa miklar áhyggjur af þeirri hættu sem þarna er ítrekað að skapast. Telja þeir fullvíst að þarna muni verða árekstur eða slys á fólki verði ekkert að gert. Skora þeir á ríkisvaldið og Vegagerðina að þarna verði komið fyrir útskoti þannig að fólk geti stoppað bíla sína án teljandi hættu. Landeigendur á Litlu-Brekku hafa þegar boðið Vegagerðinni land undir bílastæði, aðeins neðar í brekkunni. Útskot þar myndi leysa þetta vandamál.

Líkar þetta

Fleiri fréttir