Dómur viðurkennir skaðabótaskyldu Matvælastofnunar gegn Kræsingum

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað síðastliðinn fimmtudag upp dóm í máli Kræsinga ehf. í Borgarnesi gegn Matvælastofnun. Með dómnum er viðurkennd skaðabótaskylda Matvælastofnunar vegna tilkynningar sem birt var á heimasíðu stofnunarinnar 27. febrúar 2013 varðandi framleiðslu Gæðakokka, fyrirtækis sem var undanfari Kræsinga ehf. Í fréttinni á vef MAST var þess getið að rannsókn hefði sýnt fram á að ekkert kjöt hefði fundist í nautaböku frá fyrirtækinu Gæðakokkum í Borgarnesi, en nautabakan átti samkvæmt innihaldslýsingu að innihalda 30% nautahakk í fyllingu. Þrátt fyrir að dómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði borið ábyrgð á því að þær nautabökur sem voru rannsakaðar hefðu ekki innihaldið nautakjöt í samræmi við innihaldslýsingu, var að mati dómstólsins enginn vafi talinn á því að tilkynningin hefði með beinum hætti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og að það hefði lögvarða hagsmuni að fá bótaskyldu Matvælastofnunar viðurkennda. Vegna fréttar MAST og umfjöllunar fjölmiðla í kjölfarið hrundu viðskipti Gæðakokka sem verið höfðu vaxandi samkvæmt reifun dómsins um 34% á ári og numið 132 milljónum króna árið 2012. Fyrirtækinu var í kjölfarið gefið nýtt nafn en rekið áfram á sömu kennitölu. Vænta má þess að skaðabótakrafa Kræsinga ehf. geti numið verulegri upphæð nú þegar skaðabótaskyldan hefur verið staðfest fyrir dómi.

Á síðasta ári komst Héraðsdómur Vesturlands að þeirri niðurstöðu að rannsókn Matvælastofnunar á meintu kjötleysi í nautaböku hefði verið ábótavant. Aðeins eitt sýni hafi verið tekið og því ekki sýnt fram á hvort um óviljaverk eða ásetning hafi verið að ræða. Þetta eina sýni var rannsakað upp til agna og því ekki hægt að sannreyna hvort niðurstöður úr þeirri rannsókn hafi verið ábótavant.

 

Áfellisdómur yfir eftirlitskerfinu

Í forsendum héraðsdóms Reykjavíkur í síðustu viku er vikið að því að Matvælastofnun hafi brostið vald til að taka ákvörðun í málinu og að hún hafi gengið inn á verksvið Heilbrigðisnefndar Vesturlands. Ætlast hefði mátt til að frekari rannsóknir yrðu framkvæmdar áður en farið hafi verið í birtingu fréttarinnar á heimasíðu MAST, þar sem fyrirsjáanlegt hefði verið að birtingin myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Gæðakokka. Sömuleiðis er fundið að því að fréttin hefði ekki verið efnislega rétt, þar sem fullyrðing um að innköllun hefði verið framkvæmd hafi ekki staðist. Þá taldi dómstóllinn að Matvælastofnun hefði borið að kynna niðurstöður rannsóknanna fyrir fyrirtækinu áður en þær voru birtar opinberlega og gefa því tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum.

Í dómsorðum Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að viðurkennd er skaðabótaskylda Matvælastofnunar vegna tjóns sem Kræsingar ehf varð fyrir vegna tilkynningar sem birt var á heimasíðu Mast 27. febrúar 2013. Þá var Matvælastofnun gert að greiða Kræsingum 900 þúsund krónur í málskostnað. Í tilkynningu frá Matvælastofnun eftir uppkvaðningu dómsins kemur fram að ekki hafi verið ákveðið hvort dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar.

 

Bíður nú átekta

Magnús Níelsson eigandi Kræsinga ehf. segist í samtali við Skessuhorn sem minnst vilja tjá sig um málið á þessu stigi. Hann fagni þó vissulega áfangasigri í sínu máli, en bíði nú eftir hver ákvörðun Matvælastofnunar verður áður en áfrýjunarréttur stofnunarinnar rennur út.

Líkar þetta

Fleiri fréttir