Skjámynd af heimasíðu um eineltismál.

Endurskoðaðar verklagsreglur fagráðs eineltismála

Menntamálaráðherra undirritaði 17. maí síðastliðinn nýjar endurskoðaðar verklagsreglur um starfsemi fagráðs eineltismála í grunnskólum. Foreldrar og aðrir aðilar skólasamfélagsins, svo sem nemendur, starfsfólk og stjórnendur grunnskóla, auk annarra sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi, geta óskað eftir aðkomu fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga. Sömu aðilar geta jafnframt vísað máli til fagráðs vegna meints aðgerðaleysis skóla eða sveitarfélags.

Breytingar þær sem voru gerðar á verklagsreglunum eru til komnar að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Skólastjórafélags Íslands og byggja m.a. á reynslu fagráðsins á undanförnum misserum. „Haft var að leiðarljósi við gerð breytinganna að verklagsreglurnar þjóni sem best tilgangi sínum skólasamfélaginu til góðs. Sem dæmi um breytingu má nefna að nú geta fleiri aðilar óskað eftir aðkomu fagráðs, áður voru það foreldrar og skólar en nú hafa bæst við nemendur, starfsfólk skóla, auk annarra aðila sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi. Einnig er kveðið á um skipun varamanna ráðsins og hlutverk og ábyrgð verkefnastjóra skilgreint. Verklagsreglurnar bæta þær gömlu verulega upp m.a. með tilliti til bættra stjórnsýsluhátta í meðferð mála sem berast fagráðinu,“ segir í frétt frá ráðuneyti menntamála.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.