Syngja íslensk þjóðlög fyrir ferðamenn

Hjónin Valgerður Jónsdóttir og Þórður Sævarsson bjóða í sumar upp á nýjung í ferðaþjónustu á Akranesi. Um er að ræða þjónustuna „Travel Tunes Iceland,“ þar sem þau hjónin bjóða upp á viðburði þar sem þau flytja íslenska tónlist fyrir ferðafólk. Að sögn Valgerðar er verkefnið í samstarfi við Byggðasafnið í Görðum. „Við höfðum samband við Ellu Maríu Gunnarsdóttur forstöðumann menningar- og safnamála síðasta vetur og kynntum hugmyndina. Okkur langaði að geta haft aðsetur í Stúkuhúsinu þar sem umhverfið þar er kjörið fyrir þetta verkefni. Hún var strax mjög áhugasöm og sá tækifæri í þessu verkefni fyrir alla aðila. Við hjónin höldum úti heimasíðu þar sem fólk getur pantað hjá okkur tónlistarflutning. Fyrir minni hópa getum við líka boðið fólki heim í stofu, þar sem hægt er að njóta útsýnis til hafs og fjalla, spjalla og hafa það notalegt,“ segir Valgerður.

 

Nýr angi af tónlistarstarfinu

„Við höfum spilað saman til fjölda ára og þetta er svona nýr angi af okkar tónlistarstarfi,“ útskýrir Valgerður. Hún segir dagskrána byggja á þekktum íslenskum þjóðlögum og að leikið sé undir á gítara. „Þegar við bjuggum í Danmörku vorum við beðin um að gera svona dagskrá fyrir hóp af Dönum. Það gekk mjög vel og við vorum beðin um að spila þetta nokkrum sinnum. Það hefur svo blundað í okkur að fara aftur af stað með svipaða dagskrá enda fannst fólki þetta mjög áhugavert. Það má kannski segja að þetta sé aðeins öðruvísi tónlist en fólk er vant að heyra. Þetta eru klassísk lög sem Íslendingar þekkja mjög vel, svo sem Krummi svaf í klettagjá, Hættu að gráta hringaná, Hani, krummi, hundur, svín og svo framvegis.“ Valgerður segir þau reyna að draga fram séreinkenni íslenskra þjóðlaga sem eru til dæmis fimmundasöngurinn og hröð taktskipti eins og í Hani, krummi. „Við höfum lagt mikla vinnu í undirbúning og dagskráin er eins og lítil sýning með frásögnum, litlum myndum sem fólk getur skoðað meðan hlustað er og látbragði til að undirstrika textann.“

 

Jákvæðar viðtökur

Flutningur laganna er á íslensku en að sögn Valgerðar er dagskráin að öðru leyti á ensku, bæði kynningar og sögurnar í kringum lögin. „Við segjum frá því um hvað lögin fjalla. Rauði þráðurinn er svolítið þessi miklu skil sem eru á milli myrkursins á veturna og birtunnar á sumrin. Hvað það hefur verið erfitt í gamla daga að harka af sér veturinn. Þetta kemur mjög skýrt fram í mörgum þessara laga. Í þeim getur verið mjög þungur, oft drungalegur tónn en inn á milli skín svo í birtuna í fallegum, ljóðrænum laglínum.“ Valgerður segist alltaf hafa verið heilluð af íslenskum þjóðlögum og vann hún mikið með þá tónlist þegar hún var í tónlistarnámi. „Það er einhver undarlega heillandi og dularfull stemning í þessari tónlist, en samt svo mikil fegurð. Ég nýt þess í botn að fá að syngja þessi lög.“

Hún segir hugmyndina hafa fengið mjög jákvæðar viðtökur og að þau hafi nú þegar tekið á móti fyrsta hópnum sem var um tíu manna hópur Breta og Bandaríkjamanna. „Hópurinn var á vegum Ágústar Harðarsonar leiðsögumanns hjá Exploring Iceland en hann hefur verið mjög áhugasamur um þetta verkefni. Þetta gekk allt vonum framar og fólkið var mjög ánægt og fékk heilmikið út úr þessu, enda þyrstir ferðafólk í að læra um og upplifa allt sem tengist landinu. Það er ótrúlega gaman að geta boðið upp á svona menningartengda ferðaþjónustu hérna á Akranesi og við erum mjög spennt fyrir samstarfinu við þau á Byggðasafninu í Görðum. Það er dýrmætt að geta starfað hér á Skaganum, hér búum við og svæðið hefur upp á svo margt skemmtilegt að bjóða. Við vonumst til að geta byggt þetta upp á næstu árum.“

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir