Daniel Victot Herwigsson er mjög ánægður með möguleikann á valinu „Iðn – verknám á vinnustað“. Þarna er hann að vinna á Vélaverkstæði Kristjáns.

Iðn – verknám á vinnustað fyrir nemendur Grunnskólans í Borgarnesi

Grunnskólinn í Borgarnesi fór af stað með verkefnið „Iðn – verknám á vinnustað“ síðasta haust. Verkefnið er viðbót við þær valgreinar sem standa tveimur elstu árgöngum skólans til boða. Verkefnið var í grunninn hugmynd frá Önnu Dóru Ágústsdóttur kennara í hönnun og smíði. Hún sótti um styrk til Sprotasjóðs svo hægt væri að hrinda verkefninu í framkvæmd en þegar samþykki fyrir þeim styrk lá fyrir var Anna Dóra að flytja úr Borgarnesi. Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir tók við af henni með að hrinda verkefninu í framkvæmd. „Markmiðið með verkefninu er að nemendur fái að kynnast ólíkum iðngreinum og fái að máta sig við ólík verkefni iðnaðarmanna. Það gæti orðið til þess að fleiri leggi fyrir sig iðnnám og þar af leiðandi fleiri nemendur sem fara í framhaldsnám að grunnskóla loknum,“ segir Hulda Hrönn Sigurðardóttir deildarstjóri í Grunnskólanum í Borgarnesi í samtali við Skessuhorn.

 

Vel tekið á móti nemendum

Þeir nemendur sem velja Iðn – verknám á vinnustað sem valgrein taka 5-7 vikna lotur í valinu. Í vetur hafa loturnar verið fimm og alls 20 nemendur hafa tekið þetta val, eina lotu eða fleiri. Þrettán fyrirtæki í Borgarnesi hafa tekið þátt í verkefninu og sum hafa tekið við nemendum allar loturnar. „Viðhorf til verkefnisins hefur verið mjög jákvætt úr öllum áttum, frá fyrirtækjum, nemendum og ekki síður foreldrum. Í sumar og haust kom Guðrún upp tengslaneti við fyrirtæki í Borgarnesi. Verkefnið var kynnt og kannaður áhugi fyrirtækja á að aðstoða við að láta þetta verkefni verða að veruleika. Öll fyrirtækin sem haft var samband við tóku erindinu vel. Sum fyrirtækin treystu sér ekki til að vera með strax, en komu svo inn í samstarfið þegar leið á veturinn. Það er mikið lagt upp úr því hjá fyrirtækjunum að finna verkefni við hæfi fyrir nemendur. Sum þeirra hafa verið að gera sérstök verkefni fyrir krakkana á meðan önnur setja upp verkefni sem eru í tengslum við það sem verið er að gera í því fyrirtæki hverju sinni. Ekkert þessara fyrirtækja hefur farið fram á greiðslu fyrir þátttökuna. Þessi velvilji fyrirtækjanna hefur gert okkur kleift að halda verkefninu gangandi og hafa það fjölbreytt,“ segir Hulda.

Helsti kostnaðurinn við verkefnið felst í akstri nemenda á vinnustaði og tryggingar. Nemendum sem ekki eru hjá fyrirtækjum í næsta nágrenni við skólann er ekið á vinnustaðinn og sóttir þegar iðn-tímum er lokið. „Þar sem þetta er óhefðbundinn kennslustaður, utan skólalóðar og nemendur eru að vinna með verkfæri og tæki sem eru þeim mörgum framandi, auk þess sem þau eru að vinna með ýmis efni, þá er mikilvægt að þau séu tryggð á vinnustöðunum. Sjóvá sá um að hanna sérstaka tryggingu fyrir okkur í þessum tilgangi,“ segir Hulda.

 

Nemendur og foreldrar hafa verið mjög ánægðir með verkefnið

Verkefnið hefur opna dyr fyrir marga nemendur sem kannski hafa ekki fundið sig í hefðbundnu bóknámi. „Það hefur verið ánægjuleg hliðarverkun að margir þeirra nemenda sem hafa tekið þátt í iðn – verkefninu, hafa tekið sig á í bóknáminu. Eins og þeir hafi fundið tilganginn með náminu, eftir því sem þeir verða ákveðnari í hvað þá langar til að læra í framtíðinni,“ segir Hulda.

Daniel Victor Herwigsson er nemandi í níunda bekk og hann valdi Iðn – verknám á vinnustað sem valgrein. Daniel hefur prófað ýmsar greinar en hann byrjaði í málmsmíði hjá Límtré Vírneti. Hann fór svo í blikksmíði hjá sama fyrirtæki. Næst prófaði hann rennismíði hjá Vélaverkstæði Kristjáns og í síðustu lotunni ákvað hann að prófa eitthvað alveg nýtt og fór í pípulagnir hjá Árna og Guðjóni í Vatnsverki. Daniel segist vera mjög ánægður með þennan möguleika og stefnir á að nýta sér þetta val einnig næsta vetur.

Jóhanna Erla Jónsdóttir er móðir drengs sem hefur nýtt sér verkefnið og fengið að vinna bæði hjá Límtré Vírneti og Loftorku. Jóhanna segir þau mæðgin bæði vera mjög ánægð með verkefnið og Hreiðar, sonur Jóhönnu, hefur lært mikið á þessari vinnu. Hann hefur verið að koma með hluti sem hann hefur gert bæði í Vírneti og Loftorku. Í Loftorku smíðaði hann til dæmis hamar og staurasleggju sem eru hlutir sem hann kemur til með að geta notað. Jóhanna segist vona að áframhald verði á verkefninu næsta haust. En að sögn Huldu hafa viðbrögðin almennt verið á þessa leið frá nemendum og foreldrum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir