Svipmynd af fundinum. Ljósm. bifrost.is

Ekki komist hjá siðferðislega þættinum í umræðunni um skatta

Málþing um skattasiðferði fyrirtækja fór fram á vegum Nomos, félags laganema við Háskólann á Bifröst, síðastliðinn laugardag. Mikil vakning hefur orðið í samfélaginu á undanförnum vikum um skattasniðgöngu í kjölfar þeirra upplýsinga sem birtust í Panama-skjölunum. Á málþinginu tók meðal annarra til máls Soffía Eydís Björgvinsdóttir, stundakennari í skattarétti við lögfræðisvið Háskólans á Bifröst og jafnframt einn meðeiganda hjá KPMG. Einnig fluttu erindi þeir Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri og Þorbjörn Broddason prófessor í félagsfræði. „Í málstofunni voru flutt mjög efnismikil og áhugaverð erindi um skatta frá mismunandi sjónarhornum. Það vekur einna mesta athygli, að þegar horft er á hið samfélagslega hlutverk skatta t.d. hvað varðar ábyrgð fyrirtækja, að þá er umræðan farin að snúa frá því að horfa aðeins til þess hvað er innan marka laga heldur er jafnframt litið til þess hvort háttsemi fyrirtækja sé siðleg,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs við Háskólann á Bifröst.

Í erindi Soffíu Eydísar benti hún m.a. á að umræðan væri að þróast frá því að líta eingöngu til þess hvað er löglegt og yfir í það hvað telst siðlegt. Það þyki einfaldlega ekki lengur boðlegt af hálfu fyrirtækja að líta framhjá siðferðislega þættinum. Sagði hún að Evrópusambandið hefði horft á ýmsa samninga fjölþjóðlegra fyrirtækja við ríki um skattgreiðslur frá sjónarhóli samkeppnisréttarins. Skattasamkeppni ríkja væri ekkert nýmæli en í því sambandi yrði að hafa í huga hvort samningar ríkja um skatta stórfyrirtækja gæti í einhverjum tilvikum talist vera ólögmæt ríkisaðstoð í skilningi samkeppnisréttar.

Þá sagði Soffía Eydís aukinn drifkraft í umræðunni um skattasniðgöngu (e. tax dodging) fyrirtækja stafi meðal annars af nýjum efnahagslegum veruleika eftir hrun og fjármálakreppunni sem fylgdi í kjölfarið og því að almenningur væri meðvitaðri um að framlag fyrirtækja hafi þýðingu fyrir samfélagið. Þá væri aukin áhersla á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og að hún tæki einnig til skattalegra þátta í rekstri þeirra. Drifkrafturinn væri einnig sú staðreynd að fjölmiðlar hafi aukinn áhuga á skattgreiðslum fyrirtækja og að fyrirtæki séu meðvituð um að neikvæðar fréttir hafi áhrif á ímynd þeirra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir