Við undirritun samningsins. Ljósm. Kennarasamband Íslands.

Samið við grunnskólakennara

Félag grunnskólakennara hefur skrifað undir nýjan kjarasamning við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Gildistími nýja samningsins er frá 1. júní 2016 til og með 31. mars 2019. Munu laun hækka um 3,5% á þessu ári og aftur um 3% á næsta og þarnæsta ári. Auk þess verður eingreiðsla 1. febrúar 2019 að upphæð 51.900 krónur.

„Það er mat samninganefndar og svæðaformanna FG að með nýjum kjarasamningi séu helstu vankantar vinnumats lagaðir í ljósi reynslu síðasta skólaárs,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram að meðal annarra ákvæða séu að framkvæmd gæslu verður færð til fyrra horfs – eins og var fyrir kjarasamninginn 2014. „Þá verður ákvæði um kennsluskyldu breytt á samningstímanum og við bætist heimild til að safna allt að fimm frídögum á skólaári vegna yfirvinnu,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Kjarasamningurinn fer nú í kynningu og verður fundað með trúnaðarmönnum FG næstu daga. Einnig er áformað að halda opinn fund á morgun, fimmtudag, sem jafnframt verður sýndur á netinu.

Kosið verður rafrænt um nýja kjarasamninginn og er ráðgert að atkvæðagreiðslan fari fram dagana 2. til 9. júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir