María Júlía Jónsdóttir.

Hættir rekstri TK hársnyrtistofu

„Ég hef nú ákveðið að hætta rekstri TK hársnyrtistofu og verður síðasti opnunardagurinn á föstudaginn, 3. júní,“ segir María Júlía Jónsdóttir hársnyrtimeistari í Borgarnesi í samtali við Skessuhorn. „Síðustu tvo dagana verð ég með útsölu á hársnyrtivörum og býð allt með 40% afslætti,“ segir hún. Júlía keypti rekstur Tíkó af Svanhildi Valdimarsdóttur árið 2006, en þá var stofan í húsnæði þar sem verslun Líflands er núna. „Eftir það var ég um tíma í Klettavík en þegar ég flutti stofuna þangað þá breytti ég einnig nafni hennar í TK hársnyrtistofu. En ég keypti svo hluta af gamla pósthúsinu við Borgarbraut 12 þar sem ég hef verið síðustu árin með reksturinn. Aðspurð segist Júlía ekki hafa ákveðið hvað taki við hjá henni, hugsanlega fari hún í nám, en það eigi einfaldlega eftir að koma í ljós. ,,Ég vil þakka viðskiptavinum mínum traustið og samfylgdina í gegnum árin,“ segir Júlía. „Gott líka að koma því á framfæri að húsnæði hársnyrtistofunnar er til leigu eða sölu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir