Horft að Reykhólum frá Karlseyjarvegi. Reykhólakirkja stendur hæst í þorpinu, til vinstri í mynd. Ljósm. úr safni.

Gistihús af Guðs náð

Síðastliðinn föstudag var gengið fram á ferðamenn sem gert höfðu sig heimkomna í Reykhólakirkju. Þeir höfðu eytt nóttinni í kirkjunni og eldað sér þar mat. Þeim var vísað út og kirkjunni læst í kjölfarið. Að sögn heimamanna þótti ferðaönnunum alveg sjálfsagt að finna sér næturstað í kirkjunni en héldu þó sína leið eftir að þeim var gert ljóst að slíkt væri ekki í lagi. Mun þetta ekki vera í fyrsta sinn sem ferðamenn gera sig heimkomna í Reykhólakirkju. Fyrr á árinu kom Hildur Björk Hörpudóttir sóknarprestur að erlendum gestum sofandi á kirkjubekkjunum sem búnir voru að þvo af sér og elda kvöldmat.

Á Reykhólum eru tvö tjaldsvæði og nýbúið að opna gistiheimilið Álftaland, eins og greint hefur verið frá í Skessuhorni. Þá er einnig bændagisting rétt utan þorpsins. Að sögn heimamanna nýta flestir ferðamenn sér þessa kosti en alltaf reyna einhverjir að komast hjá því að nýta sér þjónustu sem greiða þarf fyrir. Blaðamaður hafði þannig til dæmis spurnir af því að í vetur hafi ferðalangar drepið á dyr hreppsskrifstofunnar og spurt hvar væri hægt að gista. Þeim hafi verið bent á bændagistingu og talið að þeir hefðu eytt þar nóttinni. Síðar kom í ljós að þeir höfðu komið sér fyrir á salerni tjaldsvæðisins og sofið þar á gólfinu. Skildu eftir umslag með þúsund króna seðli og miða með skilaboðunum „thx for the help.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira